
Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist eftir tvö ár, gangi áform stjórnvalda eftir. Þeir sem vilja lýsa skoðun sinni hafa núna sex vikna frest, til 30. nóvember, til að koma áliti sínu á framfæri.
Langstærsti og dýrasti verkþátturinn verður þverun Kleppsvíkur, milli Sundahafnar og Gufuness, hvort sem hún verður með jarðgöngum eða brú. Sjá má umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum á framfæri í skipulagsgátt.

Efla
Í matsskýrslu Vegagerðarinnar er sýnd bæði lágbrú frá Holtagörðum en einnig hábrú til að skip gætu siglt undir. Þessi nærri tólfhundruð metra langa brú yrði sú lengsta á Íslandi. Miðað er við að hábrú milli Holtagarða og Gufuness yrði þrjátíu metra há.

Efla
Með brúarleið myndi Sundabraut tengjast gatnakerfi borgarinnar á mótum Sæbrautar og Holtavegar.

Efla
Ef jarðgöng yrðu valin myndi gangamunni suðaustan Laugarness líta svona út en gangamunni nær Holtagörðum myndi tengjast inn í Sæbrautarstokk og sæist ekki á yfirborði. Jarðgöng myndu útiloka hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur.

Efla
Tenging við Grafarvogshverfið er sýnd með hringtorgi á svæði gömlu öskuhauganna í Gufunesi.

Efla
Til norðurs frá Gufuneshöfða lægi Sundbrautin yfir gömlu öskuhaugana og síðan áfram til norðurs til Geldinganess.

Efla
Tengingin yfir á Geldinganes væri á grjótfyllingu yfir Eiðsvíkina með stuttum brúm. Þar sést til hægri hvernig vegurinn yrði sprengdur niður í gegnum bunguna á Geldinganesi.

Efla
Frá Geldinganesi yfir á Gunnunes og Álfsnes yrði Sundabrautin bæði á grjótfyllingu yfir Leiruvog en einnig með nokkuð stórri brú og annarri minni.

Efla
Nyrsti áfanginn yrði svo þvert yfir Kollafjörð, milli Álfsness og Kjalarness. Þar yrði að mestu grjótfylling með tveimur samsíða brúm í miðju.

Efla
Eitt sjónarhornið í matsskýrslunni er frá bílastæðinu við Esjurætur. Þar sjáum við betur grjótgarðinn og brúaropið í miðju þegar horft er út Kollafjörð.

Efla
Vegagerðin vonast til að hægt verði að bjóða verkið út á næsta ári og ljúka samningum síðla árs 2027. Framkvæmdir gætu þá hafist eftir tvö ár. Verktími yrði sennilega fimm ár þannig að Sundabraut gæti öll verið tilbúin árið 2032.

Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson
Það færi eftir útfærslu hvað Sundabraut myndi kosta. Brúarleiðin er talin kosta vel á annað hundrað milljarða króna. Jarðgöng eru talin 10 til 25 milljörðum dýrari. En hvor leiðin sem yrði valin yrði þetta dýrasta einstaka vegaframkvæmd Íslandssögunnar.

Efla
Fjögur ár eru frá því samgönguráðherra og borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu sem kom verkefninu í núverandi farveg.

Efla
Heimild: Visir.is