
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins lögðu fram tillögu á fundi í borgarstjórn í dag um að hún samþykkti að reglur um fjölda bifreiða- og hjólastæða í borginni yrðu endurskoðaðar með það að markmiði að við framtíðardeiliskipulagsvinnu og útgáfu byggingarleyfa í Reykjavík skuli að jafnaði vera heimilt að hafa eitt bílastæði með hverri íbúð í nýbyggingum nema sérstakar skipulagslegar aðstæður kalli á annað.
Borgarmeirihlutinn samþykkti ekki tillöguna.
„Reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík kveða á um fjölda bílastæða í borgarlandinu,“ segir í tillögunni sem lögð var fram. „Þar kemur fram að að draga eigi úr fjölda bílastæða, fækka þeim sérstaklega á nýbyggingarreitum og setja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir um að taka upp gjaldskyldu bílastæða.“
Vísa borgarfulltrúarnir svo í töflu sem þeir setja fram um núverandi viðmið sem óskað er eftir að endurskoðuð verði ásamt reglunum í heild.
Nýttar til skammtímaleigu
„Uppbyggingaraðilar og fasteignasalar hafa undanfarin misseri bent á að hægst hefur mjög á sölu íbúða þar sem bílastæði fylgja ekki íbúðum. Margt annað hefur eðli máls samkvæmt áhrif á söluhraða íbúða eins og lántökuskilyrði og vaxtastig en í ljósi þróunar undanfarinna missera og mikillar umræðu um bílastæðaskort á nýjum þéttingarreitum og afar dræma sölu nýrra íbúða þar er fullt tilefni til að endurskoða bílastæðastefnu borgarinnar,“ segir svo.

Einnig hafi vaknað áhyggjur af því að íbúðir án bílastæða séu í auknum mæli keyptar af fjárfestingarfélögum sem nýta þær til skammtímaleigu, svo sem í gegnum leiguíbúðakerfið AirBnb.
„Þessi þróun dregur úr framboði á íbúðarhúsnæði fyrir fólk sem vill búa í borginni. Þetta hefur einnig bein áhrif á samfélagsgerð hverfa og grefur undan markmiðum borgarinnar um að tryggja aðgengi að stöðugu og öruggu húsnæði fyrir almenning. Skylda kjörinna fulltrúa er að huga að ólíkum þörfum íbúa borgarinnar. Fjölskyldubílinn er enn algengasti ferðamáti almennings, sérstaklega hjá fjölskyldufólki, eldri borgurum og fólki með fötlun,“ segja borgarfulltrúarnir í greinargerð með tillögu sinni.
Of stíf stefna dragi úr jafnræði
Þrátt fyrir að brýnt sé að efla notkun almenningssamgangna og hjólreiðar megi ekki ganga fram hjá þörfum íbúa fyrir bílastæði við heimili þeirra. Of stíf bílastæðastefna dragi á endanum úr jafnræði og aðgengi fólks til þess að velja sér búsetu í hverfum Reykjavíkur. Af þessum ástæðum sé nauðsynlegt að borgin endurskoði stefnu sína um fjölda bílastæða við nýjar íbúðir og taki upp það viðmið að hverri íbúð fylgi bílastæði nema sérstakar skipulagslegar aðstæður krefjist annars.
Fóru leikar svo að meirihlutinn talaði gegn tillögunni í tvær klukkustundir, eftir því sem Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknar greinir mbl.is frá í tölvupósti, og var að því loknu ákveðið að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs.
„Það eina sem þau „náðu saman um“ var að vísa tillögunni – en ég benti þeim á að þau myndu ekki ná saman um annað sem þessu máli tengist – hvað þá að breyta reglunum,“ skrifar Einar til mbl.is. „Afgreiðsla málsins væri því óheiðarleg gagnvart íbúum og þau væru að gefa íbúum falskar væntingar um breytingar,“ skrifar hann að lokum.
Heimild: Mbl.is