Velta fasteignasölunnar jókst um 29% milli ára og nam 890 milljónum króna í fyrra.
Miklaborg, ein stærsta fasteignasala landsins, hagnaðist um 45 milljónir króna árið 2024, samanborið við 30 milljóna hagnað árið áður. Félagið hyggst greiða út 40 milljónir króna í arð í ár, að því er segir í nýbirtum ársreikningi.
Velta fasteignasölunnar nam 890 milljónum króna í fyrra og jókst 198 milljónir eða um 29% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBIT) fór úr 84 milljónum í 152 milljónir milli ára. Ársverk voru 15 samanborið við 13 árið áður.
„Grunnrekstur félagsins gekk vel á árinu þrátt fyrir erfitt árferði. Staða félagsins á markaði stöðug og traust og verkefnastaðan góð,“ segir í skýrslu stjórnar.

Eignir fasteignasölunnar voru bókfærðar á tæplega 1,6 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 983 milljónir.
Fasteignasalan Miklaborg er í 52,5% eigu Óskars R. Harðarsonar og 47,5% eigu Jasonar Guðmundssonar.
Heimild: Vb.is