Home Fréttir Í fréttum Vilja hækka varnargarða við Jökulsá í Lóni

Vilja hækka varnargarða við Jökulsá í Lóni

21
0
Loftur Þór Jónsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni á austursvæði, við brú yfir Jökulsá í Lóni þar sem hringvegur fór í sundur á föstudag. RÚV – Rúnar Snær Reynisson.

Vegagerðin skoðar hvort hækka þurfi varnargarða við Jökulsá í Lóni þar sem hringvegur fór í sundur í liðinni viku. Almennri viðgerð er lokið en enn á eftir að malbika veginn.

Almennri viðgerð á Hringveginum við Jökulsá í Lóni er lokið. Vegurinn fór í sundur á 150 metra kafla í miklu vatnaveðri á föstudag skammt frá brú yfir ána.

Veginum var lokað á föstudag og á laugardag var unnið að viðgerð. Vegurinn var opnaður að nýju fyrir umferð síðdegis á laugardag.

Allir verktakar með mannskap og tæki kallaðir til

Loftur Þór Jónsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á austursvæði, segir viðgerðarvinnu um helgina hafa gengið greiðlega. Unnið hafi verið sleitulaust allan laugardaginn svo hægt væri að opna að nýju.

„Þetta gekk mjög vel, enda voru bara allir verktakar á svæðinu kallaðir til sem að höfðu mannskap og tæki til að vinna.“

Vegurinn við Jökulsá í lóni og varnargarðurinn sem á að verja hann fóru í sundur í vatnsveðrinu á föstudag.
RÚV / Rúnar Snær Reynisson

Hann segir malbiksvinnu fram undan á allra næstu dögum. Þá sé einnig til skoðunar hvort hækka þurfi varnargarða við brúna ofan vegarins. Gólfið undir brúnni er í 26 metra hæð og til skoðunar sé hvort hækka eigi garðana í 25,9.

„Þannig að þeir rofni fyrst. Það er að þeir verði ekki það háir að brúin fari að taka það. Það er það sem við erum hræddir við.“

Heimild: Ruv.is