Home Fréttir Í fréttum Vilja bæta aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip í Keflavíkurhöfn

Vilja bæta aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip í Keflavíkurhöfn

10
0
Frá Keflavíkurhöfn. RÚV – Ragnar Visage

Markaðssetning Keflavíkurhafnar fyrir komu smærri skemmtiferðaskipa hófst fyrir nokkrum árum. Í fyrra kom eitt skip, þau voru fjögur í ár og tvö hafa nú þegar bókað komu sína á næsta ári.

Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur nú til skoðunar að ráðast í framkvæmdir sem gera Keflavíkurhöfn betur í stakk búna til þess að taka á móti skemmtiferðaskipum.

Fjögur skemmtiferðaskip lögðust að bryggju í höfninni á liðnu sumri. Með þeim sigldu 822 farþegar frá 26 löndum. Ráðið lýsir ánægju sinni með hversu vel tókst til við móttöku skipanna í sumar og vonar að þetta sé aðeins byrjunin af því sem koma skuli. Þetta kemur fram í fundargerð síðasta fundar ráðsins.

Þar segir að farið hafi verið yfir ýmsa valkosti við endurbætur hafnarinnar sem ætlað er að efla þjónustugetu hennar.

Þurfa sterkari polla

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri og sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við fréttastofu að þörf sé á slíkum framkvæmdum vegna þess hve gömul höfnin er.

Setja þurfi niður sterkbyggðari bryggjupolla til að geta tekið á móti stærri skipum. Áður en ráðist er í það þarf að steypa þekjuna á stórum kafla hafnargarðsins, bendir Halldór á.

Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.
RÚV / RÚV – Jón Þór Víglundsson

Einnig hefur komið til tals að ráðast í dýpkunarframkvæmdir til að bæta viðlegupláss og hvort bæta þurfi skjól í höfninni með því að lengja grjótgarðinn við hana.

Fengu eitt skip í fyrra en fjögur í ár

Vinna við markaðssetningu Keflavíkurhafnar fyrir komu smærri skemmtiferðaskipa hófst 2019. Skömmu síðar kom babb í bátinn þegar kórónuveirufaraldurinn setti stórt strik í reikning ferðaþjónustunnar.

„Við fórum að hreyfa okkur aftur 2022. Síðast í vor ákváðum við að fara í meiri markaðssetningu heldur en hingað til, sem við vonum að skili okkur einhverju í framtíðinni. Niðurstaðan er sú að við fengum eitt heilt skemmtiferðaskip í fyrra, það komu fjögur í ár og við erum komin með tvær bókanir á næsta ári. Við erum að horfa til þess að geta farið að fjölga komum þessara skipa af alvöru 2028,“ segir Halldór sem bindur vonir við að mikilvægustu framkvæmdunum verði lokið þá.

Ein af eldri bryggjunum í Keflavíkurhöfn.
RÚV / Ragnar Visage

Hann segir einnig til skoðunar hvað gera eigi við elstu steinbryggjurnar. Þær voru byggðar á árunum 1930-35.

„Þær fara undir sjávarmál á stórstraumsflóði. Það er spurning hvort það sé kominn tími til að setja þar landfyllingar til að geta boðið upp á þjónustu,“ segir Halldór. Þannig mætti skapa betri aðstöðu fyrir fólksflutninga með rútum og fyrir flutning vista til skipanna.

Heimild: Ruv.is