Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Unnið að uppbygg­ingu Jökul­dals­vegar inn að Stuðlagili

Unnið að uppbygg­ingu Jökul­dals­vegar inn að Stuðlagili

26
0
Frá framkvæmdum við verkið Jökuldalsvegur (923) Arnórsstaðir – Langagerði í sumar.

Framkvæmdum við verkið Jökuldalsvegur (923) Arnórsstaðir – Langagerði mun ljúka í lok sumars. Vegurinn er umferðarþungur, enda fara um hann allir sem ætla að berja náttúruundrið Stuðlagil augum.

Verkið snýst um endurbyggingu og lagningu bundins slitlags á veginum á 4,6 km kafla frá Arnórsstöðum að Langagerði. Veglínan fylgir gamla veginum en plan- og hæðarlega er lagfærð. Útboð voru opnuð í september 2023 og samið var við Héraðsverk ehf., Egilsstöðum.

Kortið sýnir framkvæmdakaflann sem kláraður var í sumar.

Framkvæmdir hófust sumarið 2024. Verktakinn ákvað í samstarfi við sitt starfsfólk að vinna stóran hluta verksins í næturvinnu vegna þeirrar þungu umferðar sem er á veginum yfir daginn. Þar sem nýi vegurinn liggur í sömu línu og sá gamli var erfitt um vik að vinna við framkvæmdina nema loka fyrir umferð sem þótti ekki fýsilegt yfir daginn, enda engin hjáleið til staðar. Einhver umferð var líka um kvöld og nætur og var henni hleypt gegnum framkvæmdasvæðið.

Stuðlagil, horft yfir á bæinn Grund en eins og sjá má er búið að byggja upp nokkra útsýnispalla vestan megin við gilið.

Framkvæmdum og lokafrágangi mun ljúka nú í lok sumars.

Verkið sem var klárað nú er hluti af því heildarverkefni að byggja upp og leggja bundið slitlag á Jökuldalsveginn frá Hringveginum að bænum Grund. Árið 2022 var byggður upp 3,1 km kafli frá Gilsá og inn fyrir bæjarstæðið á Arnórsstöðum, og þaðan endurbygging á um 1 km kafla að Arnórsstaðarhvammi (Hnappá), eða samtals 4,1 km.

Til stendur að halda áfram að byggja upp Jökuldalsveginn á næstu árum. Næsta verkefni verður að byggja upp veginn frá Langagerði að Hákonarstöðum eða um fjögurra kílómetra leið og loks verða kláraðir síðustu fjórir kílómetrarnir að bænum Grund. Þar með verður kominn uppbyggður vegur með bundið slitlag að Stuðlagili sem er einn vinsælasti ferðamannastaður á Austurlandi.

Ferðafólk á útsýnispalli við Stuðlagil

Við Hákonarstaði beygja margir inn á Klausturselsveg sem liggur að bílastæði þaðan sem hægt er að ganga um tvo kílómetra inn að Stuðlagili. Önnur leið til að skoða Stuðlagil er að aka Jökuldalsveginn að bænum Grund þar sem byggð hefur verið upp góð aðstaða fyrir ferðafólk. Þar er salernisaðstaða og nokkrir útsýnispallar.

Tímasetning næstu framkvæmda mun skýrast með nýrri samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í haust.

Þriðji áfangi við uppbyggingu Jökuldalsvegar mun liggja að Hákonarstöðum. Tímasetning framkvæmdanna kemur í ljós í nýrri samgönguáætlun sem lögð verður fyrir á Alþingi í haust.

Heimild: Vegagerdin.is