Home Fréttir Í fréttum Gagnrýnir að ríkið skattleggi innviðaframkvæmdir sveitarfélaga

Gagnrýnir að ríkið skattleggi innviðaframkvæmdir sveitarfélaga

21
0
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðsend

Formaður sambands sveitarfélaga gagnrýnir að þau þurfi að borga virðisaukaskatt til ríkisins af nauðsynlegum innviðaframkvæmdum svo sem skólabyggingum. Sveitarfélög glími líka við innviðaskuld og reki langt vegakerfi.

Sveitarfélögin greiddu ríkinu 15 milljarða króna í virðisaukaskatt vegna innviðaframkvæmda í fyrra. Formaður Sambands sveitarfélaga segir það hamlandi. Sveitarfélögin þurfi líka að vinna á innviðaskuld.

Minni skattheimta myndi liðka fyrir innviðaframkvæmdum

„Sveitarfélögin fjárfestu fyrir 76 milljarða á síðasta ári í innviðaframkvæmdum, eða framkvæmdum sem eru til uppbyggingar innviða sem eru fyrir íbúa landsins. Af þeim fóru 15 milljarðar til baka til ríkisins í formi virðisaukaskatts. Okkur finnst það skjóta skökku við að þessar framkvæmdir séu með þessari skattheimtu. Ef ríkið hefur tilgreint innviðaskuld þá erum við hjá sveitarfélögunum líka í innviðaskuld að mörgu leyti. Við erum að halda úti sama vegakerfi og ríkið liggur við í kílómetrum talið. Þannig að ég tel að þetta myndi liðka verulega fyrir í innviðauppbyggingunni,“ segir Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands sveitarfélaga.

Sveitarfélög þurfa jafnvel að taka lán fyrir skattinum og borga vexti

Sveitarfélögin standa frammi fyrir miklum fjárfestingum. Á Seyðisfirði þarf Múlaþing að byggja grunnskóla fyrir 800 milljónir og virðisaukaskattur til ríkisins gæti orðið vel á annað hundrað milljónir. Sá skattur er enn þá dýrari þegar upp er staðið. Múlaþing, sem er ekki skuldlaust sveitarfélag, þarf líka að fjármagna skattinn af framkvæmdinni og skuldar fyrir vikið meira og greiðir meiri vexti jafnvel í langan tíma.

Á Egilsstöðum er verið að byggja skólphreinsistöð fyrir 450 milljónir. Þar af er áætlaður virðisaukaskattur til ríkisins 87 milljónir. Ríkið styrkir reyndar fráveituframkvæmdir en segja má að ríkisstyrkurinn sé ekki raunverulegur því hann fer í virðisaukaskattinn.

Auknar framkvæmdir myndu skila ríkinu auknum tekjum

Samband sveitarfélaga ræðir nú við ríkið um möguleika á að fá virðisaukaskatt af innviðaframkvæmdum endurgreiddan. Jón Björn segir að það myndi ekki brenna 15 milljarða gat á ríkissjóð því sveitarfélög færu í fleiri framkvæmdir sem skildu eftir sig víðtækara skattspor.

„Í fráveitum bíður mikið verkefni. Innleiðing á nýjum regluverkum, eða staðfesting á þeim, mun gera það að verkum að sveitarfélögin munu þurfa að fjárfesta mjög mikið á næstu árum og þetta myndi einnig liðka verulega fyrir í þeim efnum og verður að gerast til að þau einfaldlega standi undir þeirri miklu fjárfestingu,“ segir Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands sveitarfélaga.

Heimild: Ruv.is