Home Fréttir Í fréttum Seldu íbúðir fyrir 2,8 milljarða

Seldu íbúðir fyrir 2,8 milljarða

33
0
Félagið vann að endurbyggingu fasteignar að Borgartúni 24, þar sem eru 64 íbúðir og 5 atvinnubil. Ljósmynd: Aðsend mynd

EE Development hagnaðist um 359 milljónir króna í fyrra. Stjórn leggur til að 130 milljónir verði greiddar í arð til hluthafa.

Framkvæmdafyrirtækið EE Development ehf. skilaði 359 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 177 milljóna króna hagnað árið 2023. Á árinu 2024 voru undirritaðir kaupsamningar fyrir samtals 2.823 milljónir króna en árið áður nam söluverð eigna 1.189 milljónum króna.

Í ársreikningi segir að félagið hafi á árinu unnið að endurbyggingu fasteignar að Borgartúni 24, þar sem eru 64 íbúðir og 5 atvinnubil. Fyrstu íbúðir voru afhentar í lok mars 2024 en óseldar íbúðir í lok árs 2024 voru 22. Að því er segir í skýrslu stjórnar er stefnt að því að ljúka sölu á þeim á árinu 2025.

Eignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 2,2 milljarða króna í árslok 2024, samanborið við 4,3 milljarða í árslok 2023. Eigið fé nam 541 milljón um síðustu áramót en nam 182 milljónum árið áður. Stjórn leggur til að 130 milljónir verði greiddar í arð til hluthafa.

Stærstu hluthafar EE Development eru Pei ehf. með 26,9% hlut, Framkvæmdafélagið Arnarhvoll ehf. með 22,9% hlut, og E3 ehf. með 20,1% hlut.

Heimild: VB.is