Home Fréttir Í fréttum Sindragata 4A á Ísafirði: framkvæmdir stöðvaðar

Sindragata 4A á Ísafirði: framkvæmdir stöðvaðar

17
0
Frá framkvæmdum við grunn Sindragötu 4B. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál stöðvaði í gær framkvæmdir á Sindragötu 4A Ísafirði, sem hafnar voru samkvæmt byggingarleyfi frá 26. ágúst 2025, á grundvelli samþykkis byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar á meðan kærumál er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Íbúar og fasteignareigendur að Sindragötu 4A og Aðalstræti 8, 10 og 16 á Ísafirði, kærðu þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 26. ágúst 2025 að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 4A við Sindragötu vegna nýs fjöleignarhúss. Var þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Hefur nefndin nú fallist á stöðvunarkröfuna en á eftir að úrskurða um aðalkröfuna, að fella úr gildi heimildina til byggingarinnar.

 Í málinu er deilt um lögmæti byggingaráforma á lóð nr. 4A við Sindragötu á Ísafirði sem fela í sér að á lóðinni verði byggt þriggja hæða fjöleignahús með 9 íbúðum, en fyrir er á lóðinni þriggja hæða fjöleignahús með 13 íbúðum.

Takmarkað byggingarleyfi var veitt fyrir verkþáttum tengdum jarðvinnu, sökkulsmíð og lögnum í grunni.

Nefndin segir í úrskurði sínum að af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni verði ráðið að álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar sem áhrif gætu haft á gildi hennar og nefndin þurfi tóm til að kynna sér nánar.

Leiki þannig t.a.m. vafi á um það hvort byggingaráformin samræmist skipulagsáætlunum og hvort lögbundinnar álitsumleitunar skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 hafi verið leitað með fullnægjandi hætti. Bent er á að í fyrri úrskurði nefndarinnar vegna byggingaráforma á lóðinni, í máli nr. 61/2024, var bent á að í ljósi stefnumótunar í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 væri tilefni til sérstakrar umfjöllunar við undirbúning ákvörðunar um hvort tryggt sé að áformin samræmist stefnumótuninni.

„Með vísan til alls framangreinds þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en beðið er frekari skýringa af hálfu sveitarfélagsins.“

Heimild: BB.is