Home Fréttir Í fréttum Afhending verknámshúss FSu dregst

Afhending verknámshúss FSu dregst

88
0
Mynd: Sunnlenska.is

„Við fáum húsið afhent í áföngum, þann fyrsta nú við byrjun skólaárs,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands um útlit á kennslu í verkmenntahúsinu Hamri.

<>

Fyrsta skóflustungan var tekin í fyrrasumar en strax dróst að hefja framkvæmdir eftir langt og dýrt hönnunarferli. Nú er allt útlit fyrir að stór hluti hússins verði ekki tekinn í gagnið fyrr en í janúar næstkomandi.

Starfsmenn verktaka vinna hörðum höndum að því að geta afhent einn sal undir tréverkstæði ásamt aðstöðu fyrir kennara, skólatorg og snyrtingu áður en kennsla á að hefjast þann 18. ágúst. 

Að sögn Olgu er ætlunin að verkstæði fyrir kennslu málmgreina, sem er allstór salur í húsinu miðju verði afhentur þann 1. september. Aðrir hlutar hússins verði ekki teknir í gagnið fyrr en í nóvember og að hluta til í janúar, einkanlega hluti gamla húsnæðisins, þar sem skipta þurfti m.a. um þak og glugga.

Hvað búnað varðar segir Olga Lísa að enn skorti fjármagn til kaupa á nýjum búnaði til kennslunnar. „Við erum nokkuð uggandi yfir þeirri stöðu, einkanlega hvað varðar málmiðnina, en við erum að leita leiða,“ segir hún. Fyrst um sinn verði því notast við eldri kennslutæki úr gamla húsnæðinu.

Heimild: Sunnlenska.is