Home Fréttir Í fréttum Vilja byggja íbúðarhús úr gömlum vinnubúðum á Húsavík

Vilja byggja íbúðarhús úr gömlum vinnubúðum á Húsavík

228
0
Dótturfyrirtæki PCC vill fá að byggja hluta af nýju íbúðahverfi á Húsavík úr notuðum vinnubúðareiningum. Formaður byggðarráðs Norðurþings segir slíkt ekki koma til greina.

PCC Seaview Residences, dótturfélag þýska fyrirtækisins PCC sem nú byggir kísilver á Bakka, á fráteknar lóðir fyrir íbúðir í nýju hverfi í suðurhluta Húsavíkur. Þar eru áform um byggingu um það bil 40 íbúða sem fyrirtækið ætlar sjálft að byggja.

<>

Vönduð timburhús og hús úr vinnubúðaeiningum

Bæjaryfirvöldum í Norðurþingi barst nýlega erindi frá fyrirtækinu þar sem kom fram að það vildi minnka byggingarmagnið og að sveitarfélagið tæki yfir gatnagerð í hverfinu. Þá vill fyrirtækið fara tvær leiðir við byggingu húsa í hverfinu. „Núna í sumar komu fram ný áform, sem eru annarsvegar venjuleg íslensk og vönduð timburhús í öðrum hluta hverfisins. Í hinum  hlutanum verði að einhverju leiti byggt úr vinnubúðaeiningum frá Reyðarfirði, sem hafa staðið þar síðastliðinn áratug,“ segir Óli Halldórsson, formaður byggðarráðs Norðurþings.

Telja þetta alls ekki koma til greina

Hann segir að byggðarráð og meirihluti sveitarstjórnar telji alls ekki koma til greina að fara þessa leið. „Þessi upphaflegu áform sem lagt var af stað með hérna í sumar, hugnuðust okkur mjög vel. Að þetta félag byggði vönduð íbúðarhús inni í hverfi hjá okkur. Það er eftir því sem við höfum verið að vinna.“

Stefnubreytingin kom á óvart

Óli segir að þessi stefnubreyting PCC Seaview Residences hafi komið mjög á óvart. Fulltrúar Norðurþings og fyrirtækisins munu í dag halda fund um þetta mál og þar segist Óli vonast eftir frekari skýringum.

Heimild: Ruv.is