Home Fréttir Í fréttum Endur­byggja gömul hús úr mið­bæ Reykja­víkur á Sel­fossi

Endur­byggja gömul hús úr mið­bæ Reykja­víkur á Sel­fossi

10
0
Syndikat og Ingólfshvoll séð frá vestri. Landsbyggð

Stjórn félags eldri borgara á Selfossi tók í dag fyrstu skóflustunguna að fimm þúsund fermetra uppbyggingu við miðbæinn á Selfossi. Um er að ræða sex ný hús við Miðstræti, nýja götu sunnan við núverandi miðbæ, sem þverar Brúarstræti og liggur frá austri til vesturs. Fyrirmynd húsanna sem byggð verða eru hús sem áður voru í miðborg Reykjavíkur.

Í húsunum verða 27 íbúðir á efri hæðum og verslunar- og þjónusturými á jarðhæð, auk bílakjallara. Áætluð verklok eru um mitt ár 2027.

„Við erum afar spennt fyrir þessum áfanga enda er hann fyrsta skrefið í frekari uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi. Nýi miðbærinn hefur sannað gildi sitt með því að efla mannlíf og menningarstarf í bænum og skapað ný störf. Þetta gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um áframhaldandi uppbyggingu og þau tækifæri sem í henni felast,“ segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri Landsbyggðar, í tilkynningu um uppbygginguna.

Stjórn félags eldri borgara tók fyrstu skóflustunguna í dag.
Aðsend

Þar kemur fram að hugmyndafræðin að baki miðbænum á Selfossi sé að endurreisa horfin hús úr Íslandssögunni og skapa lifandi vettvang fyrir mannlíf og menningu. Þar megi nú finna endurbyggð hús víðs vegar af landinu en í þessum áfanga verði öll húsin ættuð úr miðbæ Reykjavíkur. Húsin voru öll byggð um aldamótin 1900 og mörg þeirra brunnu til kaldra kola í brunanum mikla árið 1915.

„Miðbærinn á Selfossi hefur á örfáum árum orðið hjarta samfélagsins okkar – staður þar sem fólk kemur saman, sækir þjónustu og nýtur lífsins. Áframhaldandi uppbygging er mikið gleðiefni fyrir íbúa, enda mikilvægt skref í þróun sveitarfélagsins og mun styrkja samfélagið til framtíðar,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, í tilkynningunni.

Húsin sem verða endurbyggð við Miðstræti:

● Austurstræti 7

Tvílyft hús sem var reist snemma á 20. öldinni og var í eigu Gunnars Gunnarssonar verslunarmanns. Það brann til kaldra kola í miðbæjarbrunanum mikla árið 1915.

● Austurstræti 9

Þriggja hæða timburhús sem reis við hlið Landsbankans. Verslunin Edinborg var starfrækt þar um skeið. Húsið brann í miðbæjarbrunanum 1915.

Gamla Syndikat. Myndin er tekin 1913 og sýnir Pósthússtræti og Austurstræti. Syndikatið svokallað sem reist var af Einari Benediktssyni. Verslun T.H.Thorsteinssonar. Syndikatið brann í brunanum mikla í apríl 1915.
Aðsend

● Syndikatið

Reist á mótum Austurstrætis, Pósthússtrætis og Austurvallar rétt eftir 1900. Vöruhús á þremur hæðum, fyrsta stórverslun landsins þar sem Einar Benediktsson skáld hafði tögl og haldir. Húsið brann 1915.

● Ingólfshvoll

Verslunar-, skrifstofu- og íbúðarhús reist 1904, á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Húsið skemmdist mikið í brunanum 1915 en var endurreist. Margs konar starfsemi var í húsinu til ársins 1969 en þá var það rifið.

Gamli Ingólfshvoll er fyrirmyndin að húsi sem verður byggt í miðbæ Selfossar. Verslunar-, skrifstofu- og íbúðarhúsið var reist 1904, á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Húsið skemmdist mikið í brunanum 1915 en var endurreist. Margs konar starfsemi var í húsinu til ársins 1969 en þá var það rifið.
Aðsend

● Bergstaðarstræti 14

Timburhús sem var reist árið 1907 en brann rúmum áratug síðar.

● Völundur

Trésmiðja sem var reist árið 1904 af Sveini M. Sveinssyni á horni Klapparstígs og Skúlagötu. Þar hófst vélvæðing í íslenskum timburiðnaði. Húsið var rifið skömmu fyrir 1990.

Reiturinn sem er verið að fara að byggja og miðbærinn á Selfossi í heild.
Landsbyggð

Landsbyggð er fasteigna- og þróunarfélag sem sérhæfir sig í uppbyggingar- og umbreytingarverkefnum um allt land. Auk uppbyggingar á Selfossi hefur Landsbyggð nýlega fest kaup á Landsbankahúsinu við Austurstræti 11 og gömlu höfuðstöðvum Landsvirkjunar við Háaleitisbraut 68. Landsbyggð er í eigu Leós Árnasonar og Kristjáns Vilhelmssonar.

Tölvumynd af Miðstræti séð frá austri.
Landsbyggð

Heimild: Visir.is