Home Fréttir Í fréttum RST Net sér Vaðölduveri fyrir rafbúnaði

RST Net sér Vaðölduveri fyrir rafbúnaði

10
0
Á myndinni fagna samningnum þau Sigurgeir B. Geirsson, yfirverkefnastjóri Vaðölduvers, Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmda, Steinn Ágúst Steinsson, sérfræðingur í þróun vindorku, Sigmundur Jónsson, framkvæmdastjóri RST Net, Bergsteinn Daníelsson, verkefnisstjóri hjá RST Net og Sigrún Elva Reynisdóttir, sérfræðingur hjá Landsvirkjun.

Landsvirkjun hefur samið við RST Net ehf. um hönnun, innkaup, framleiðslu og uppsetningu á rafbúnaði í safnstöð á framkvæmdasvæði fyrirhugaðs vindorkuvers við Vaðöldu. Samningurinn nemur rúmum 450 milljónum króna og var tilboð RST Net metið hagstæðast af fjórum sem bárust.

RST Net mun hefja hönnun, innkaup og framleiðslu nú þegar en áætlað er að framkvæmdir á verkstað hefjist á næsta ári. Verkinu fylgir uppsetning á rafbúnaði í safnstöð sem tengist vindmyllum versins og er stefnt að því að ljúka verkinu síðla árs 2027.

Hönnun, innkaup og framleiðsla hefst nú þegar

Helstu verkþættir samningsins fela í sér útvegun og uppsetningu á 33 kV og 11 kV dreifingu ásamt stöðvarnotkunarspennum. Þá verður smíðuð og sett upp 400 V aðaldreifing og tvær jafnstraumsdreifingar. RST Net sér einnig um útvegun, forritun og uppsetningu á stjórn- og varnarbúnaði, auk eftirlits, tenginga og frágangs á 33 kV og 11 kV strengjum. Loks felur samningurinn í sér útvegun og uppsetningu á 220 kV gegnumtökum ásamt ýmsum auka- og viðbótarverkum.

„Þetta er stór áfangi í uppbyggingu Vaðölduvers,“ segir Sigurgeir B. Geirsson, yfirverkefnisstjóri Vaðölduvers. „Við erum afar ánægð með að semja við íslenskt fyrirtæki sem hefur mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði. Með þessu tryggjum við öflugan rafbúnað sem mun nýtast til að tengja vindorkuna við raforkukerfið og styðja þannig orkuskipti framtíðarinnar.“

Heimild: Landsvirkjun.is