Home Fréttir Í fréttum Verja tugum milljóna í flugvöll í Hvassahrauni

Verja tugum milljóna í flugvöll í Hvassahrauni

163
0
Hvassahraun
Icelandair Group hefur sett af stað tugmilljóna vinnu við að kanna möguleikann á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Forstjóri fyrirtækisins segir flugvöllinn geta kostað minna en til stendur að verja í uppbyggingu í Keflavík á næstu árum.

Í fyrrasumar komst nefnd sem er jafnan kennd við Rögnu Árnadóttur að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun, nærri Straumsvík, væri heppilegasti staðurinn undir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Í nefndinni sátu auk Rögnu fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair. Lítið hefur gerst í málinu þar til nú, að Icelandair Group hefur hafið vinnu við að kanna fyrir alvöru möguleikann á flugvelli í hrauninu.

<>

„Já við höfum verið að skoða þetta töluvert mikið og eigum eftir að fara í tilraunaflug yfir svæðið til þess að kanna hvort svæðið sé hæft til þess að bera flugvöll út frá flugtæknilegum atriðum sem þarf vissulega að skoða,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Sýndu ekki rannsóknir hér áður fyrr að þetta svæði hentaði ekki fyrir flug?

„Jú mér skilst það að þetta hafi verið skoðað fyrir mjög mörgum árum, einhverjum tugum ára, og þá hafi þetta ekki hentað. En við höfum verið í samvinnu við flugmenn sem telja að aðstæður gætu hafa breyst það mikið að þetta gæti hentað.“

Vildi ekki að skýrslan yrði uppi í hillu

Rannsóknin nú snýr að því að kanna hvort veður og nálægð fjalla á svæðinu henti til flugs. Icelandair ætlar að stunda tilraunaflug í vetur og vonast er til þess að það verði komið á hreint næsta vor hvort hraunið sé raunhæfur kostur. Björgólfur segir að þessi athugun kosti einhverja tugi milljóna.

„Málið er auðvitað að það er búið að liggja lengi fyrir vilji stjórnmálamanna í Reykjavík að leggja Vatnsmýrarflugvöllinn af. Það breytir mjög miklu í flugumhverfi fyrir landið. Miklu í millilandafluginu, varaflugvallardæmið fer út í Reykjavík, millilandaflugið mun þá verða kostnaðarmeira og við höfum ekki séð innanlandsflugið henta í Keflavík ef það verður niðurstaðan að Vatnsmýrarflugvöllurinn fari. Þannig að við horfum einfaldlega á þetta sem okkar skyldu að kanna þennan möguleika til enda og það liggur þá bara fyrir ef Hvassahraunið hentar ekki, þá er Vatnsmýrin áfram flugvöllur því það var vissulega niðurstaða Rögnunefndarinnar að þar til önnur staðsetning fyndist væri Vatnsmýrin með flugvöll.“

Björgólfur segir að þótt ríki og borg hafi átt fulltrúa í Rögnunefndinni komi fulltrúar þeirra ekkert að þessari athugun nú, Icelandair Group standi eitt að henni.

„Ég er þeirrar skoðunar að ef þú setur á fót einhverja nefnd sem er að skoða lausn við einhverju ágreiningsmáli, að þá hafði ég engan áhuga á því að svona skýrsla yrði uppi í hillu. Þannig að við vildum kanna þann möguleika sem kom fram í skýrslunni til enda. Og við erum ein í því,“ segir Björgólfur. Það sé hins vegar ólíklegt að fyrirtækið myndi koma að byggingu og rekstri flugvallarins.

Pólitíkin á síðasta orðið

Björgólfur segir að þótt flugvöllurinn væri fyrst og fremst hugsaður fyrir innanlandsflug sé sá möguleiki fyrir hendi að hann yrði líka fyrir millilandaflug.

„Þarna gæti þá komið annar valkostur sem gæti í heild sinni verið ódýrari, allavega ekki dýrari, heldur en við erum að sjá uppbygginguna í Keflavík kosta þegar við horfum til enda. Næstu fimm árin er talað um 30 milljarða fjárfestingu og þá erum við bara búin með eitt skref af einhverjum.“

Þó sé ljóst að nýr flugvöllur í Hvassahrauni sé gríðarleg fjárfesting sem kosti að minnsta kosti 100 milljarða króna. Þjóðhagsleg hagkvæmni af honum geti þó orðið allt að 125 milljarðar króna á 50 ára tímabili.

Ef niðurstaðan um aðflugið verður jákvæð, verður þá ráðist í byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni?

„Ég get ekki svarað því. Það sem við viljum fá upp er hvort þetta sé raunhæfur kostur. Ef þetta reynist raunhæfur kostur þá er það í raun pólitíkin sem þarf að taka boltann og ákveða,“ segir Björgólfur.

Heimild: Ruv.is