Home Fréttir Í fréttum Meiri kostnaður en vegna tveggja jarðskjálfta

Meiri kostnaður en vegna tveggja jarðskjálfta

380
0
Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni EFLU, segir að kostnaður vegna rakaskemmda og myglu í húsum sé gríðarlega mikill. Verkfræðistofan EFLA metur kostnað við rakaskemmdir og myglu. Ríkharður segir að á síðasta hálfa ári hafi þeim reiknast til að kostnaður vegna raka og myglu í húsum sé orðinn samanlagt hærri en vegna jarðskjálftanna 2000 og 2008. Samanlagður kostnaður vegna jarðskjálftanna var um 20 milljarðar.

Ríkharður segir að tryggingafélög taki ekki ábyrgð á rakaskemmdum í veggjum eða mygluskemmdum. Það sé á ábyrgð eigenda húsnæðisins.

<>

Iðnaðarmenn og hönnuðir beri ábyrgð

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, fagstjóri Húss og heilsu, fagsviðs innan verkfræðistofunnar EFLU, sem rannsakar líðan notenda í byggingum, segir að hús á Íslandi þurfi að vera byggð vel, þar sem veðráttan bjóði upp á að hús leki. Einnig segir hún að iðnaðarmenn bregðist ekki nægilega vel við þegar upp komi raki í húsnæði.

Sylgja segir að iðnaðarmenn, hönnuðir og arkitektar þurfi að gera sér grein fyrir að þeirra vinnubrögð hafi áhrif á heilsu íbúa. Léleg vinnubrögð geti valdið því að mygla myndist í húsi og þannig gert heilu fjölskyldurnar veikar.

Aðalmygluvaldurinn eftir tíu ár

Ríkharður segir að það sé synd að engin rannsókn hafi verið gerð á hvaða byggingaraðferð sé best til að koma í veg fyrir myglu og rakaskemmdir. „Það er grátlegt að ríkisstjórnin vilji ekki veita pening í að rannsaka myglu á Íslandi. Við vitum bara um brot af þeirri myglu sem er í húsi fólks, hún er falin.“

Í dag séu hús einangruð að innan, sett er steinull upp við útvegginn og plast rakavörn yfir það. Komist raki í gegnum rakavörnina er hætta á að mygla myndist inni í veggnum. „Þetta er ótrúlega mikil skammsýni og þessi einangrunaraðferð verður aðalmygluvaldurinn eftir tíu ár.“

Fyrir tveimur árum gaf hópur sérfræðinga út minnisblað þar sem þeir vöruðu við  ákveðinni uppbyggingu á útveggjum vegna hættu á mygluskemmdum.

Heimild: Ruv.is