Home Fréttir Í fréttum Ítrekað bent á hættuna af landrofi við Vík

Ítrekað bent á hættuna af landrofi við Vík

23
0
Mynd: Vegagerðin.

Ekki hefur verið heimilað að byggja þar vegna hættunnar.

Vegagerðin og forveri hennar hafa ítrekað liðin ár og áratugi bent á hættuna af ágangi sjávar og landrofi austan skilgreindrar varnarlínu við Vík í Mýrdal. Ekki hefur verið heimilað að byggja þar vegna hættunnar. Það er hlutverk sjóvarna að verja eignir og mannvirki en ekki land og ætíð þarf að meta kostnað við varnir. Hringvegurinn fram hjá Vík er ekki í hættu að mati Vegagerðarinnar.

Áætlaður kostnaður við að verja ströndina austan skilgreindrar varnarlínu við Vík í Mýrdal er að lágmarki milljarður króna. Sú upphæð er hundraðfalt verðmæti fjárhússins sem fór á haf út. Staðsetning varnarlínunnar á sínum tíma tók mið af kostnaði við að verja ströndina og verðmæti þeirra mannvirkja sem þar stóðu. Sveitarfélaginu hefur margoft verið bent á þetta og að ekki sé heimilt að byggja austan varnarlínunnar.

Landeigandi óskaði eftir því við Vegagerðina að færa hús. Það erindi var sent sveitarfélaginu sem hafnaði því að útvega landeigandanum aðra lóð. Sveitarfélagið krafðist þess hins vegar að Vegagerðin myndi verja húsin. Sjóvarnir, til dæmis bygging sandfangara væru gríðarlega kostnaðarsamar auk þess sem ekki væri fullvíst að sandfangari myndi skila þeim árangri sem sóst er eftir. Farið var í viðeigandi bráðabirgðavarnir fyrir framan húsin austan varnarlínunnar.

Hringvegurinn er ekki í hættu en vinna við skilgreiningu á nýrri varnarlínu, til þess að verja Hringveginn, er hafin og verður þá litið til stöðunnar á landrofi til langs tíma og staðsetningar Hringvegarins. Verði varnarlínan færð þarf að huga að því hvernig sjóvörnum verði háttað.

Strandlengjan framan við Vík í Mýrdal er ein sú útsettasta í heiminum og hefur allt frá árinu 1971 hopað yfir 400 metra. Upp úr árinu 1990 fóru menn að hafa áhyggjur af rofinu og var í framhaldinu skilgreind varnarlína framan við byggðina. Staðsetning varnarlínunnar var skilgreind miðað við kostnað við gerð sjóvarnar borið saman við kostnað við mannvirki sem verja átti. Því var ákveðið að hún færi ekki lengra en sem nemur því þar sem austustu byggingarnar voru á sínum tíma. Fjárhúsin, sem staðsett eru austan við byggðina, myndu þá á einhverjum tímapunkti fara í sjóinn miðað við þá áætlun.

Heimild: Dfs.is