
Ryð, sót og veggjakrot, brotnar rúður og flögnuð málning. Þetta er meðal þess sem blasir við nú á lóðinni við Borgartún 34-36 sem snýr að Kringlumýrarbraut. Eldur kom upp í húsinu í sumar en það er í mikilli niðurníðslu og hefur ekki verið í notkun um hríð. Húsin á lóðinni sem byggð voru á árunum 1958 til 1978 fá senn að fjúka en á lóðinni eiga að rísa hundrað nýjar íbúðir.
Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er töluvert minna eftir af yfirgefnum húsum í borginni en áður var þar sem fólk á það til að brjótast inn og leita skjóls eða jafnvel halda til.
Húsin við Borgartún séu meðal þeirra fáu sem eftir eru þar sem þetta hefur verið tilfellið. Í kjölfar bruna á borð við þann sem varð í húsinu í lok júlí setji slökkviliðið sig almennt í samband við eigendur húsanna og biðli til þeirra um að tryggja betur aðstæður til að koma í veg fyrir að hætta skapist í yfirgefnum húsum.

Vísir/Anton Brink
Núverandi eigendur hússins segja að gerðar hafi verið ýmsar ráðstafanir og girt fyrir svæðið til að koma í veg fyrir að fólk fari inn. Erfitt sé að koma alfarið í veg fyrir það ef fólk hafi ásetning um að brjótast inn. Verkefnið sé í ferli en fyrir liggur deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir niðurrifi þeirra húsa sem fyrir eru á lóðinni og að þar geti risið hvorki meira né minna en hundrað nýjar íbúðir.
Þegar ljósmyndari Vísis var á svæðinu fyrr í vikunni mátti sjá hvar framkvæmdir stóðu yfir í bakhúsinu þar sem verið var að hreinsa út timbur og annað brak.
Lesa má úr gögnum Borgarsögusafns Reykjavíkur að húsin á lóðinni hafi lengst af verið í eigu ferðaþjónustufyrirtækisins Guðmundar Jónassonar hf. en stofnandi þess, Guðmundur Jónasson, var frumkvöðull í hálendisferðum á jeppum og rútum. Eldri húsin á lóðinni hafi upphaflega verið reist sem vélsmiðjur en síðar löguð að starfsemi ferðaþjónustufyrirtækisins sem lét síðar reisa bílskýli og nýbyggingu undir verkstæði, skrifstofur og gistiheimili.

Vísir/Anton Brink
Gildandi deiliskipulag fyrir lóðina var samþykkt 2017 og með breytingum sem á því voru gerðar 2022 var samþykkt að fjölga fyrirhuguðum íbúðum á reitnum úr 68 í 100 á fjórum til átta hæðum. Heimilt er að rífa allar byggingar sem fyrir eru á lóðinni og í staðinn komi ein stölluð og U-laga íbúðabygging á fjórum til átta hæðum með allt að hundrað íbúðum í mismunandi stærðum auk verslunar- og þjónustu á jarðhæð meðfram Sóltúni. Gististarfsemi og skammtímaleiga verði óheimil á lóðinni.

Vísir/Anton Brink
Samkvæmt deiliskipulagi eru byggingar sem fyrirhugaðar eru á lóðinni sagðar til þess fallnar að stuðla að sólríku og skjólgóðu útivistarsvæði fyrir íbúa þar sem gert er ráð fyrir grænu svæði og auknum gróðri. Uppbygging á lóðinni muni auka á fjölbreytileika og styrkja yfirbragð hverfisins.
Borgartún 34-36 er í eigu byggingarfélagsins Hofsvaðs ehf. sem er í eigu Gunnars Þórs Gíslasonar viðskiptamanns, en hann er meðal annars stjórnarformaður Ölmu leigufélags og einn eigenda fjárfestingafélagsins Langasjávar.

Vísir/Anton Brink
Heimild: Visir.is