
Fyrsta skóflustungan fyrir nýjan þéttbýliskjarna í Fljótdalshreppi var tekin í gær. 24 íbúðir eiga að rísa í fyrsta áfanga.
Fyrsta skóflustunga var tekin í gær að nýjum þéttbýliskjarna í Fljótsdal. Sveitarstjóri segir eftirspurnina mikla og jákvætt að búsetumöguleikum Austfirðinga fjölgi.
Þéttbýliskjarninn hefur verið lengi í undirbúningi en ekkert þéttbýli hefur áður verið í Fljótsdal. Íbúaráð og fyrirtæki í dalnum óskuðu eftir að hann yrði byggður.
Helgi Gíslason sveitarstjóri segir að fyrst um sinn sé gert ráð fyrir 24 íbúðum í kjarnanum, sem fengið hefur nafnið Hamborg. Þó geri skipulag ráð fyrir stækkunarmöguleika – allt að 40 lóðum til viðbótar.
„Þetta eru yfirleitt einbýlishús en það eru líka parhús. Lóðirnar eru síðan breytilegar, allt frá því að vera bara svona litlar nettar lóðir eins og við þekkjum víðast hvar í þéttbýli, yfir í tiltölulega stórar lóðir þar sem menn geta verið með smá ræktun og hesthús og nýtt sér lífsgæðin í sveitinni,“ segir Helgi.

– Fljotsdalur.is
Strax farið að biðja um lóðir
Gert er ráð fyrir að byggja á bilinu fimm til tíu hús á þessu og næsta ári. Opnað var fyrir lóðaumsóknir fyrir helgi. Helgi segir nokkra einstaklinga hafa beðið um lóðir, auk þess sem sveitarfélagið ætli að byggja tvö hús. Þá eru einnig í gangi viðræður við leigufélögin Brák og Bríet.
„Þetta skapar bara meiri fjölbreytni í búsetumöguleikum Austfirðinga. Menn geta valið sér að vera í litlu þorpi, þéttbýli, sveit, á Egilsstöðum eða í þorpunum í Fjarðarbyggð, þannig þetta gefur okkur fleiri tækifæri.“
Hamborg rís um hálfum kílómetra frá Skriðuklaustri og var bæði fyrsta skóflustunga og vígsluathöfn í dag. Halla Tómasdóttir forseti Íslands tók fyrstu skóflustunguna.
Heimild: Ruv.is