Home Fréttir Í fréttum Mögulegt samstarf um uppbyggingu íbúðahverfis í Stykkishólmi

Mögulegt samstarf um uppbyggingu íbúðahverfis í Stykkishólmi

20
0
Mynd af svæðinu

Sveitarfélagið Stykkishólmur leitar eftir áhugasömum aðila eða aðilum til frekari viðræðna um samstarf um skipulag og uppbyggingu íbúðarsvæðis vestan Borgarbrautar í Víkurhverfi í Stykkishólmi.

Gatna- og lagnaframkvæmdir við fyrsta áfanga á nýju hverfi í Stykkishólmi, Víkurhverfi, austan Borgarbrautar, er nú á lokametrunum. Um er að ræða nýtt og fjölskylduvænt íbúðahverfi í mikilli nánd við náttúruna. Samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er mikil eftirspurn eftir húsnæði í Stykkishólmi. Mikill áhugi og eftirspurn hefur verið fyrir því að flytja í Stykkishólm undanfarin ár og eru yfirstandandi framkvæmdir og ósk um viðræður við aðila til samstarfs um skipulag og uppbyggingu í Víkurhverfi svar við því ákalli.

Svæðið er íbúðarsvæði og er um 24,1 ha að stærð. Núgildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir tveimur raðhúsum og 13 einbýlishúsum. Byggilegt svæði er um 12.100 m2, óbyggilegt um 5.200 m2 og óhreyft svæði er um 6.800 mað stærð. Fyrir liggur vilji til að skoða breytingar á deiliskipulagi m.t.t. hugmynda umsækjanda um skipulag svæðisins. Gert er ráð fyrir að umsækjandi beri allan kostnað við slíka breytingu.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi annist og beri kostnað af gatnagerð, fráveitu og uppsetningu ljósastaura gegn því að gatnagerðargjald verði ekki innheimt. Sveitarfélagið mun annast yfirborðsfrágang og gerð gangstétta.

Við mat á umsóknum og umsækjendum mun sveitarstjórn einkum meta og taka tillit til eftirfarandi atriða.

  • Hugmyndum umsækjanda um uppbyggingu á svæðinu. Óskað er eftir grófri hugmynd að skipulagi svæðisins.
  • Fjárhæðar sem umsækjandi er tilbúinn til að greiða fyrir lóðir/byggingarétt og greiðslufyrirkomulag. Óskað er eftir tilboði í byggingarrétt á svæðinu.
  • Framkvæmda- og uppbyggingartíma. Óskað er eftir tímaáætlun um gerð skipulags, framkvæmdir og uppbyggingu svæðisins.
  • Þekkingu og reynsla umsækjanda af rekstri og uppbyggingu. Óskað er eftir upplýsingum um sambærileg verkefni umsækjanda og forsvarsmanna umsækjanda.
  • Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að krefjast staðfestingar á fjárhagslegri getu umsækjanda.

Berist áhugaverðar tillögur að skipulagi og hagstæð tilboð mun sveitarfélagið taka upp viðræður við þann eða þá aðila sem skila inn áhugaverðustu og hagkvæmustu tillögunum. Slíkar viðræður geta leitt til þess að leitað verði eftir samkomulagi um skipulag og úthlutun lóða á svæðinu í heild eða hluta. Aðalmenn í bæjarráð ásamt formanni skipulagsnefndar meta umsækjendur og leggja tillögu sína fyrir bæjarstjórn. Bæjarstjórn áskilur sér allan rétt til að taka hvaða tillögu sem er eða hafna öllum tillögum.

Nánari upplýsingar gefur Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri, í síma 433-8100. Einnig er hægt að senda almenna fyrirspurn á stykkisholmur@stykkisholmur.is.

Áhugasamir aðilar eru vinsamlegast beðnir um að senda umsókn í samræmi við ofangreint til Sveitarfélagsins Stykkishólms á netfangið stykkisholmur@stykkisholmur.is eigi síðar en fyrir lok dags þann 25. ágúst 2025.

Heimild: Stykkishólmur