Home Fréttir Í fréttum Miklar framkvæmdir fram undan við stækkun löndunarhúss Loðnuvinnslunnar

Miklar framkvæmdir fram undan við stækkun löndunarhúss Loðnuvinnslunnar

10
0
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. Mynd: Austurfrett.is

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er að hefja framkvæmdir við stækkun löndunarhúss síns. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir breyttar reglur þýða að ráðast verði í framkvæmdirnar en óttast þó að hækkun veiðigjalda letji sjávarútvegsfyrirtæki til framþróunar síðar.

Breytingar á vigtarreglum, sem taka gildi um næstu áramót, krefjast þess að allur fiskur í uppsjávarveiðum sé heilvigtaður á leið inn í vinnslur. Ekki var hægt að koma slíkum búnaði fyrir í löndunarhúsinu eins og það er í dag. Þess vegna verður byggt við það og ráðist í aðrar breytingar í leiðinni. Keyptur verður inn nýr innvigtunarbúnaður frá KAPP.

Síldarflökun verður færð inn í húsið og einnig búnaður úr Salthúsinu, sem stendur fyrir ofan bræðsluna. Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir ekki ákveðið hvað gert verði við húsið, þar sé til staðar góður kælir og pláss sem geti nýst í geymslur.

Tilbúið fyrir makrílvertíð 2026

Upphaflega stóð til að nýja húsið yrði tilbúið fyrir áramót en framkvæmdirnar reyndust það umfangsmiklar að Loðnuvinnslan fékk undanþágu fram á næsta sumar. Stefnt er á að húsið verði tilbúið fyrir makrílvertíð sumarið 2026. Jarðvegurinn er undirbúinn í sumar, stálgrindarhúsið á að koma í nóvember og verða tilbúið í febrúar.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er vel rúmlega milljarður króna. Garðar segir þungt að ráðast í svo mikla fjárfestingu á sama tíma og hækkun veiðigjalds sé yfirvofandi, í bland við versnandi umhverfi uppsjávarveiða. Áætlað hefur verið að veiðigjald á Loðnuvinnsluna meira en tvöfaldist en það var 231 milljón í fyrra.

Loðnubrestur hefur orðið tvö ár í röð, síldarstofnarnir virðast vera að gefa eftir, vísbendingar eru um að kolmunninn sé einnig að gera það og þá hefur þurft að sækja makríl fjær Íslandi. „Við hefðum frestað þessari fjárfestingu ef einhver kostur hefði verið á,“ segir Garðar.

Heimild: Austurfrett.is