Home Fréttir Í fréttum Fresta framkvæmdum á umdeildu svæði í Heiðmörk

Fresta framkvæmdum á umdeildu svæði í Heiðmörk

10
0
Veitur vilja stækka brunnsvæði í kringum borholur í Heiðmörk, meðal annars við Myllulækjartjörn. Þar er eitt besta útsýnissvæðið í Heiðmörk og færa þyrfti Ríkishringinn, vinsæla gönguleið á svæðinu. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur harðlega gagnrýnt áformin ásamt fleiri hagaðilum. mbl.is/Þorsteinn

Veitur ætla ekki að hefja framkvæmdir í sumar til stækk­unnar á afgirtu svæði utan um vatns­vernd­ fyrirtækisins í Heiðmörk líkt og til stóð. Hins vegar stendur til að framkvæmdir hefjist fyrir áramót.

Framkvæmdirnar eru mjög umdeildar og hafa Skógræktarfélag Reykjavíkur og útivistarfélög meðal annars gagnrýnt framkvæmdina harðlega og sagt hugmyndir Veitna takmarka að óþörfu aðgengi borg­ar­búa að úti­vist­ar­svæðinu. Ljóst er að þær munu meðal annars breyta vinsælli gönguleið í Heiðmörk og girða af helsta útsýnisstað svæðisins.

Er þetta annað af tveimur aðgengismálum í Heiðmörk sem deilt hefur verið um undanfarið, en hitt varðar mögulega lokun á umferð um stóran hluta útivistarsvæðisins.

Veitur staðfesta að framkvæmdunum hafi verið frestað í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is vegna málsins.

Veitur vilja hefja framkvæmdir í Heiðmörk fyrir áramót.

Fara átti í framkvæmdirnar að kröfu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem brunnsvæði eiga samkvæmt reglum að vera að fullu afgirt, en aðeins hluti svæðisins er nú girtur.

Málið var tekið fyrir á fundi borgarstjórnar í júní þar sem tillögu um stofn­un stýri­hóps með til þess að móta framtíðar­sýn um Heiðmörk var vísað frá. Sagði meirihlutinn málið vera í skýrum farvegi á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs.

Færa á Ríkishringinn
Fyrirtækið áformar að hefja framkvæmdir fyrir áramót, en þá verður fyrst lagður nýr göngu- og hjólastígur til að tryggja að útivistarfólk verði ekki fyrir skerðingu.

Hluti Ríkishringsins, vinsæls stígs í Heiðmörk, mun liggja innan hinnar fyrirhuguðu girðingar og verður hann því færður áður en girðingavinna hefst.

Á hæðinni fyrir ofan Myllulækjartjörn er eitt besta útsýnissvæðið í Heiðmörk. Hér er horft frá Esjunni yfir Móskarðshnúka og Skálafell og hægra megin sést rétt svo í Hengilinn. Elliðavatn er vinstra megin og Myllulækjartjörn hægra megin. Frá hæðinni sést einnig upp í Bláfjöll og yfir hluta af efri byggðum höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Þorsteinn

Líkt og fram kom á fjölmennu málþingi um framtíð Heiðmerkur sem útivistarsvæðis fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins í byrjun sumars mun færsla á gönguleiðinni loka á besta útsýnisstað Heiðmerkur, en það eru hæðirnar fyrir ofan Myllulækjartjörn.

Gagnrýndu fundarmenn þar harðlega samskiptaleysi Veitna og töldu þeir að þær forsendur sem Veitur settu fram væru ósannfærandi. Var veitufyrirtækið jafnframt sakað um yfirgangssemi og eineltistilburði og að reyna að koma sér hjá samtali við borgarbúa þegar kæmi að þessu hagsmunamáli, en auk breytinganna á gönguleiðinni horfa Veitur til þess að loka fyrir umferð ökutækja um stóran hluta Heiðmerkur.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa þessi áform eru tveir fyrrverandi borgarstjórar, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem nú situr í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Ríkishringurinn er vinsæl gönguleið sem meðal annars fer í gegnum svæðið sem Veitur vilja girða af vegna stækkunar brunnsvæðis. mbl.is/Þorsteinn

Óljóst hvenær framkvæmdir hefjist
Afgirta svæðið mun að lokinni stækkun ná til um þriggja prósenta af heildarflatarmáli Heiðmerkur, en er nú tvö prósent. Óljóst er hvenær sjálfar framkvæmdirnar hefjast þar sem þær eru háðar útgáfu framkvæmdaleyfis frá Reykjavíkurborg.

Í svarinu kemur fram að Veitur taka jafnframt þátt í vinnu við nýtt deiliskipulag Heiðmerkur ásamt Reykjavíkurborg og Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Þar er meðal annars skoðuð staðsetning bílastæða og hvernig takmarka megi gegnumakstur án þess að gestir þurfi að ganga langar leiðir til að komast að útivistarsvæðinu.

Ítreka Veitur í svarinu að fyrirtækið leggi áherslu á að tryggja hreint neysluvatn til framtíðar en jafnframt að Heiðmörk haldi áfram að vera útivistarparadís.

Heimild: Mbl.is