Home Fréttir Í fréttum Borgin furðar sig á ásökunum KSÍ

Borgin furðar sig á ásökunum KSÍ

21
0
Lóðavinna er hafin við skólaþorpið við Laugardalsvöll. RÚV – Ragnar Visage

Reykjavíkurborg vísar á bug ásökunum KSÍ um samráðsleysi í tengslum við framkvæmdir við skólaþorp við Laugardalsvöll. Formaður KSÍ sagði þær ekki samræmast gildandi deiliskipulagi en borgin vísar því á bug.

Reykjavíkurborg hafnar því að framkvæmdir við skólaþorp við Laugardalsvöll séu hafnar án þess að samþykkt skipulag liggi fyrir og kannast ekki við samráðsleysi við KSÍ. Borgin sendi frá sér fréttatilkynningu í kjölfar yfirlýsingar Knattspyrnusambands Íslands, sem gerði athugasemdir við framkvæmdina.

KSÍ lýsti yfir áhyggjum af fyrirhuguðum framkvæmdum og óánægju yfir því að lóðavinna hafi hafist í byrjun júní án samráðs við sambandið. Formaður KSÍ sagði fyrir viku að vinnuvélar hefðu verið fluttar á byggingasvæðið í byrjun júní án þess að sambandinu væri tilkynnt um það. Hann sagði framkvæmdirnar ekki vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.

„Í upphafi árs var komið á upplýstu samtali og samráði við KSÍ og hafa samskipti verkefnastjóra skólaþorpsins við forsvarsfólk KSÍ verið regluleg og ítarleg,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Lóðavinna hófst í sumar.
RÚV – Ragnar Visage

Yfirstandandi framkvæmdir byggja á samþykktum byggingaráformum frá 18. mars 2025 ásamt fyrirliggjandi byggingarleyfi frá 12. júní 2025.

„Samþykkt byggingaráform frá 18. mars 2025 skilgreina að sótt sé um leyfi fyrir byggingum sem rúmast innan gildandi skipulags. Þar kemur einnig fram að fyrri umsókn um byggingaráform fyrir tímabundið leikskólaúrræði verði ógilt, og að ný byggingaráform um skólaþorp taki gildi. Það er því staðreynd að með samþykktum byggingaráformum og byggingarleyfi liggja öll tilskilin leyfi fyrir.“

Afstöðumynd af skólaþorpinu og tímaáætlun var kynnt fyrir aðilum KSÍ í byrjun árs. Verkefnastjóri upplýsti jafnframt KSÍ í mars um að framkvæmdir myndu hefjast í sumar.

Í athugasemdum KSÍ var lögð áhersla á áhyggjur af öryggismálum, sér í lagi aðkomu sjúkrabíla vegna áforma um að loka annarri akstursleiðinni að bílastæði Laugardalsvallar.

Reykjavíkurborg segir sérstaka áherslu lagða á öryggi og aðgengi gangandi vegfarenda, sérstaklega skólabarna. Því er mikilvægt að loka fyrir þveranir inn á Reykjaveg.

„Að höfðu samráði við almannavarnir verður aðkoma neyðarbíla áfram tryggð eftir annarri leið sem verður lokuð almennri umferð.“

Heimild: Ruv.is