
„Að hafa góða samstarfsmenn og skulda helst aldrei neitt. Þetta eru mikilvæg atriði í fyrirtækjarekstri sem hafa gefist mér vel,“ segir Finnbogi Geirsson, forstjóri Stjörnublikks ehf. Á dögunum var gengið frá kaupum Stjörnublikks í Kópavogi á Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu úr þrotabúi Kamba ehf.
Kambar urðu gjaldþrota í apríl síðastliðnum og þá strax í kjölfarið hófust umleitanir skiptastjóra að koma eigum og rekstri búsins í verð. Úr varð að Stjörnublikk keypti glerframleiðsluna og hefst sú starfsemi að nýju strax eftir verslunarmannahelgi.
Söluskrifstofurnar tvær hafa þegar verið opnaðar. Þær eru á Eyjasandi 2 á Hellu í verksmiðjuhúsinu þar og á Smiðjuvegi 2 í Kópavogi undir sama þaki og Stjörnublikk. Fyrirtækin Samverk og Stjörnublikk verða þó að öllu leyti rekin aðskilin.
Heimild: Mbl.is