Velta Malbikunarstöðvarinnar Höfða dróst saman um 28% milli ára og nam 978 milljónum króna í fyrra.
Malbikunarstöðin Höfði, dótturfélag Reykjavíkurborgar, tapaði 215 milljónum króna árið 2024, samanborið við 30 milljóna tap árið 2023. Samanlögð afkoma félagsins á síðastliðnum fimm árum er neikvæð um 234 milljónir króna.
Velta Malbikunarstöðvarinnar Höfða dróst saman um 28% milli ára og nam 978 milljónum króna í fyrra. Til samanburðar voru rekstrartekjur félagsins í fyrra helmingi minni en á árinu 2018 þegar þær námu tæpum 2 milljörðum króna.
Rekstrargjöld félagsins námu 1.226 milljónum í fyrra og drógust saman um 12,4% frá fyrra ári. EBIT-afkoma félagsins var neikvæð um 248 milljónir, samanborið við 43 milljóna EBIT-tap á árinu 2023.

Framleiðslan í sögulegu lágmarki í fyrra
Í ársreikningi félagsins segir að framleiðsla malbiks hafi náð sögulegu lágmarki árið 2024 í takt við samdrátt á markaði.
„Undanfarin ár hefur framleiðsla dregist saman, en greiningar og áætlanir benda til aukningar frá og með árinu 2025, með áframhaldandi vexti á næstu árum. Jafnframt hefur gengið mun betur við öflun nýrra verkefna en áætlað var, og allt bendir til þess að félagið fari fram úr upphaflegum áætlunum ársins,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Niðurskurður og samdráttur í framkvæmdum, opinberum og í einkageiranum, er helsta ástæða samdráttar á malbiksmarkaði. Eins hefur hátt vaxtastig og verðbólga líklega haft áhrif á uppbyggingu og viðhald vega og gatna.“
Félagið segir mikla samkeppni vera í framleiðslu á malbiki sem hafi áhrif á sölu malbiks miðað við fyrri ár. Hins vegar sé fjöldi verktaka sem hafa yfir að ráða tækjum til að leggja út malbik takmarkaður.
„Miðað við áform opinberra aðila er snúa að ýmsum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu þá er gert ráð fyrir að malbiksframleiðsla aukist aftur á næstu árum og reiknað er með því í rekstraráætlunum félagsins fyrir a.m.k. næstu fimm ár.“
Höfði fjárfesti í bikflutningsgámum, helsta hráefni malbiks. Félagið segir að við þetta skapist tækifæri til að stýra innflutningi og þannig sé það ekki bundið við innflutning í stórum tankskipum með tilheyrandi óvissu.
Eignir Malbikunarstöðvarinnar Höfða voru bókfærðar á 1.621 milljón króna í árslok 2023 og eigið fé var 1.270 milljónir.
Kostnaðarsamir flutningar
Starfsemi Höfða var á Sævarhöfða 6-10 en unnið hefur verið að flutningum yfir á lóð að Álhellu 34 í Hafnarfirði sem félagið keypti árið 2021. Fyrsta framleiðsla hófst þar í maí 2022.
Enn er eftir að rífa nokkur mannvirki á lóðunum að Sævarhöfða – þar á meðal mannvirki sem hýsa grjótmulningsstöð og einnig stóra tanka sem geymdu bindiefni í malbik – auk þess sem flutningi á framkvæmdadeild og skrifstofu Höfða hefur verið frestað tímabundið.
„Flutningar starfseminnar hefur verið kostnaðarsöm aðgerð fyrir félagið ásamt því að vera flókin og tímafrek framkvæmd og hefur gengið verulega á eigið fé félagsins,“ segir stjórn félagsins.
Stefnt er að því að semja að nýju um dagsett lok á viðveru Höfða að Sævarhöfða við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar.
Heimild: Vb.is