Home Fréttir Í fréttum Gaf gögn um Rögnvald Ólafsson arkitekt

Gaf gögn um Rögnvald Ólafsson arkitekt

313
0
Mynd: BB.is Póstkort frá Rögnvaldi Ólafssyni til móður sinnar, Veroniku Jónsdóttur. Póstkortið er dagsett 23. janúar 1916 á Vífilstöðum þar sem Rögnvaldur lést rúmu ári seinna.

Héraðskjalasafninu á Ísafirði barst í síðustu viku gjöf frá Unni Ágústsdóttur (f. 1927) er Björn G. Björnsson hönnuður afhenti fyrir hennar hönd. Um er að ræða gögn er varða Rögnvald Ólafsson arkitekt (1874-1917) og fjölskyldu hans en Unnur gaf þau til minningar um eiginmann sinn Pál Steinar Guðmundsson, skólastjóra, er lést 13. febrúar 2015.

<>

Páll var fæddur á Ísafirði 29. ágúst 1926 og voru foreldrar hans Guðmundur G. Kristjánsson gjaldkeri og var Lára Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir. Guðmundur var sonur Kristjáns Júlíusar Ólafssonar, bónda á Meira-Garði í Dýrafirði, sem var bróðir Rögnvaldar arkitekts. Páll ólst upp á Ísafirði til 17 ára aldurs, var síðan við nám í Samvinnuskólanum og fór að því loknu í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni þaðan sem hann útskrifaðist 1949. Hann lauk námi frá Kennaraskóla Íslands 1953 og stundaði síðar nám við Metropolitan State College í Denver, Colorado 1976-1977.

Páll kenndi við Barnaskólann í Borgarnesi 1950-1959 og var síðan ráðinn skólastjóri við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi árið 1959. Gegndi hann því starfi þar til hann fór á eftirlaun 1995.

Árið 1950 kvæntist Páll Unni Ágústsdóttur kennara og eignuðust þau fimm dætur. Eftir lát Páls áskotnuðust Unni þau gögn er hér um ræðir, aðallega bækur og kort úr fórum Elínar Sigríðar Halldórsdóttur, ekkju Jóns Þorkels Ólafssonar trésmiðs á Ísafirði, bróður Rögnvaldar arkitekts.

Björn G. Björnsson hefur á undanförnum árum rannsakað sögu og verk Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts og nú í haust kemur út bókin

Fyrsti arkitektinn, Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans. Bókin er 240 bls. og í henni eru um 400 ljósmyndir, 100 teikningar, ítarlegur texti og útdráttur á ensku.

Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag. Björn leitaði víða heimilda við vinnslu bókarinnar, m.a. hjá Unni Ágústsdóttir, og urðu þau sammála um að umrædd gögn í hennar varðveislu yrðu framvegis varðveitt á Skjalasafninu Ísafirði. Færir Skjalasafnið Unni þakkir fyrir þessa merku gjöf sem veitir innsýn í líf fyrsta íslenska arkitektsins, Rögnvaldar Ólafssonar.

Heimild: BB.is