Landsbankinn hefur tekið tilboði Landsbyggðar ehf. í Landsbankahúsið við Austurstræti 11 og Hafnarstræti 10, 12 og 14.
Húsin voru auglýst til sölu 15. maí sl. Tvö tilboð bárust og var tilboð Landsbyggðar metið hagstæðara, að teknu tilliti til tilboðsskilmála og núvirðis á greiðslum. Söluverð húsanna er 2,85 milljarðar króna.
Landsbyggð er fasteigna- og þróunarfélag sem sérhæfir sig í uppbyggingar- og umbreytingarverkefnum um allt land og hefur meðal annars staðið að uppbyggingunni í miðbæ Selfoss, í gegnum dótturfélagið Sigtún Þróunarfélag ehf.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Austurstræti 11 er eitt glæsilegasta hús landsins og reyndist bankanum afar vel. Salan markar tímamót því nú hefur bankinn selt öll Landsbankahúsin, sem voru teiknuð af eða byggðu á teikningum Guðjóns Samúelssonar, en líkt og átti við um hin húsin hentaði Austurstræti 11 ekki lengur starfsemi bankans. Það er mikilvægt fyrir miðborgina að húsið fái nýtt hlutverk og það verður áhugavert að fylgjast með hvernig byggingarnar verða nýttar og svæðið glætt nýju lífi.“
Guðjón Auðunsson, stjórnarformaður Landsbyggðar, segir:
„Landsbyggð horfir til þess að þróa húsin með virðingu fyrir sögu þeirra og staðsetningu með það að markmiði að þau verði lifandi hluti af borginni á ný. Markmiðið er að efla mannlíf í hjarta borgarinnar. Húsin og staðsetningin bjóða upp á ótal möguleika sem ríma vel við þá hugsun sem liggur að baki okkar verkefnum – að vinna með sögu og staðaranda og búa til nýja og skemmtilega áfangastaði.“
Reist árið 1898 og endurbyggt 1924
Húsin sem um ræðir eru samtals 5.836 fermetrar að stærð, þar af 1.380 fermetrar í kjallara. Austurstræti 11 var reist árið 1898 og endurbyggt árið 1924 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Guðjón hannaði einnig innréttingar hússins.
Húsið var friðað árið 1991, bæði að utan sem og innviðir eins og vegglistaverk og upprunalegar innréttingar. Viðbygging við húsið var tekin í notkun árið 1940. Samtengt húsinu er Hafnarstræti 10–12, svonefnt Edinborgarhús frá árinu 1923, auk Hafnarstrætis 14 sem var reist árið 1970. Landsbankinn flutti starfsemi sína úr Kvosinni árið 2023, úr samtals 12 húsum, í nýtt húsnæði við Reykjastræti 6.
Heimild: Landsbankinn