Verkhönnun er nýhafin á ofanflóðavörnum í sunnanverðum Seyðisfirði. Stefnt er að því að framkvæmdir þar hefjist þegar lokið verður við snjóflóðavarnir í norðanverðum firðinum.
Eins og Austurfrétt greindi frá á þriðjudag gaf Skipulagsstofnun í byrjun þessa mánaðar út álit á umhverfismati ofanflóðavarnanna. Það er eitt þeirra verka sem klára þarf áður en hægt er að hefja framkvæmdir.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis-, loftslags-, og orkumálaráðuneytinu var í byrjun mánaðar líka samið við VSÓ um verkhönnunina. Fyrirtækið er þegar byrjað og er áætlað að vinnu þess ljúki um mitt næsta ár.
Á Seyðisfirði er þessa dagana unnið við snjóflóðavarnir í norðanverðum firðinum. Framkvæmdum við annan varnargarðinn af þremur lýkur í vikunni. Verkinu á að ljúka að fullu á næsta ári.
Í færslu frá Jóhanni Páli Jóhannssyni, ráðherra sem var á Seyðisfirði í síðustu viku, kemur fram að framkvæmdir í sunnanverðum firðinum eigi að hefjast strax þegar snjóflóðavörnum lýkur.
„Sumarið hefur verið nýtt vel til uppbyggingar ofanflóðavarna víða um land og þau hjá Héraðsverki hafa látið hendur standa fram úr ermum á Seyðisfirði. Það er gaman að sjá afraksturinn og hvað þessi mannvirki falla vel að bæjarmyndinni.
Snjóflóðavarnargarðar hafa ítrekað sannað gildi sitt og þess vegna leggur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur áherslu á að hraða brýnustu verkefnum. Í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 900 milljóna króna aukningu til málaflokksins,“ segir hann þar.
Heimild: Austurfrett.is