Hótel Lóa, nýtt hótel á Hvolsvelli, var opnað formlega síðastliðinn föstudag. Opnunin hefur gengið vonum framar og nú þegar er nánast orðið uppbókað í ágústmánuði.
Þetta segir Vilhjálmur Sigurðsson, einn af eigendum hótelsins, í samtali við mbl.is.
„Opnunin gekk mjög vel. Það var mikið að gera síðustu dagana en þetta hafðist og það var allt klárt á föstudaginn þegar fyrstu gestirnir komu um fjögurleytið,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Frá fyrsta degi hefur áhuginn verið gríðarlegur, að hans sögn. Bókanir hafa gengið vonum framar og ágústmánuður er þegar nánast fullbókaður, bæði af innlendum og erlendum gestum.

„Suðurlandið er vinsæll staður“
Framkvæmdir hófust í janúar og aðeins sex mánuðum síðar stendur hótel með 66 herbergjum, þar af tvær svítur, ásamt veitingastaðnum Bergþóru og notalegum bar sem setur svip sinn á andrúmsloftið.
Aðspurður segir Vilhjálmur Suðurlandið gríðarlega vinsælan áfangastað meðal ferðamanna. Hótelið hafi verið fullbókað í gærkvöldi.
„Suðurlandið er vinsæll staður, þar fara flestir um.“

Einn af eigendum hótelsins er reynslumikill hóteleigandi, Vilhjálmur Sigurðsson, sem jafnframt er stjórnarformaður Hótel Lóu. Þetta er fjórða hótelið sem hann byggir, en hann er áður þekktur fyrir hóteluppbyggingu á Hótel Kríu í Vík í Mýrdal og Hótel Laxá við Mývatn.
Heimild: Mbl.is