Aðeins ellefu hlutdeildarlán hafa verið veitt á Austurlandi á þeim fimm árum sem liðin eru síðan stjórnvöld hófu að bjóða slík lán til þeirra sem bágt eiga með að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þingmaður skoðar nú leiðir til að bæta þar úr.
Hlutdeildarlánin voru kynnt af hálfu stjórnvalda árið 2020 en þeim er fyrst og fremst ætlað að auðvelda ungu fólki eða fólki með lágar tekjur að eignast þak yfir höfuðið. Úrræðið tilkomið þar sem fasteignaverð á landsvísu hefur hækkað drjúgt víðast hvar um margra ára skeið og fjölmargir sem ekki uppfylla lengur þær kröfur sem gerðar eru við veitingu hefðbundinna íbúðalána.
Í grunninn virka hlutdeildarlán þannig að engar eru mánaðarlegar greiðslur né vextir þegar keypt er með slíkum lánum heldur greiðast lánin til baka á tíu til fimmtán árum eða þegar eignin er seld aftur. Aðeins tekjulágir og fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er gjaldgengt auk þess sem íbúðirnar verða að vera samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Nokkrar fyrirspurnir vegna þessa úrræðis hafa verið bornar fram á Alþingi undanfarið en Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi, fékk um daginn svör um hversu mörg slík lán hefðu verið afgreidd skipt niður eftir sveitarfélögum. Þar kemur í ljós að einungis ellefu hlutdeildarlán hafa verið veitt á Austurlandi öllu; fimm í Fjarðabyggð og sex í Múlaþingi.
Betur þarf að gera
Það eru æði fá lán austur á land að mati Ingibjargar og reyndar er staðan sú að yfirgnæfandi meirihluti hlutdeildarlána fer til kaupa á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða næsta nágrenni.
„Það var búið að benda mér á að með tilkomu þessara lána á sínum tíma hefði fasteignasala víða tekið góðan kipp upp á við og þar á meðal á Akureyri en hin síðari ár dregið mjög úr og nú er menn nánast ekkert að selja með þessum lánum.
Ég vildi því vita hvort þetta væri raunin og í svarinu kemur glögglega fram að það eru mörg svæði úti á landi þar sem lítið sem ekkert er verið að veita slík lán. Hver ástæðan er veit ég ekki en í kjölfarið hef ég ákveðið að fylgja þessu eftir á þinginu næsta haust.
Það er greinilegt að þetta úrræði er ekki að skila sér lengur á þau svæði sem við viljum að það skili sér til. Það er vissulega áhyggjuefni og hugsanlega er hægt að hafa áhrif á þetta með breyttum reglum. Það er einmitt það sem ég er að velta fyrir mér nú um stundir hvað sé til ráða til að bæta þar úr því mér skilst að engar breytingar á þessu séu fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar.“
Heimild: Austurfrett.is