Home Fréttir Í fréttum Grafa sökk í mýri og skemmdi stofnlögn

Grafa sökk í mýri og skemmdi stofnlögn

45
0
Vélin sökk í mýrina og sat maðurinn fastur inni í henni. Ljósmynd/Ólafur Auðunsson

Stofnlögn kalda vatnsins inn á Stokkseyri skemmdist á sjötta tímanum í morgun eftir að beltagrafa gróf niður í lögnina við Hraunsá.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is var maðurinn að losa stíflu í ánni í óleyfi.

Grafan sökk niður í mýrina og voru björgunarsveitir og slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu kallaðir á vettvang til þess að ná gröfumanninum úr vélinni. Það tókst ekki fyrr en stærri grafa kom á vettvang og togaði vélina upp.

Magnús Ragn­ars­son, aðal­varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að gröfumaðurinn hafi verið handtekinn og er málið í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Vegna þessa mega Stokkseyringar búast við skertum þrýstingi og minni vatnsgæðum á kalda vatninu í dag og næstu daga.

„Við náum að taka vatn úr Flóanum en þá verður viðsnúningur á rennsli í lögnunum þannig að vatnið verður gruggugt. Það er verið að vinna að því að komast að lögninni við Hraunsá, þetta liggur í mýri þannig að það er talsverð vinna að finna lögnina,“ segir Ásgeir Magnússon, rekstrarfulltrúi hjá Selfossveitum, í samtali við sunnlenska.is.

Heimild: Sunnlenska.is