Framkvæmdir við nýja Fossvogsbrú ganga vel að sögn Davíðs Þorlákssonar, framkvæmdastjóra Betri samgangna, en framkvæmdin er í þeirra höndum.
Fyrsta skóflustungan við byggingu brúarinnar var tekin 17. janúar síðastliðinn. Bygging hennar er hluti af samgöngusáttmálanum. Umferð um brúna verður ætluð borgarlínu, gangandi og hjólandi vegfarendum.
„Það standa núna yfir framkvæmdir við fyllingar brúarinnar, þeim er að mestu leyti lokið Kópavogsmegin og þær standa núna yfir Reykjavíkurmegin,“ segir Davíð í samtali við Morgunblaðið. Hann bætir við að búið sé að bjóða út sjálfa brúarsmíðina og að tilboð verði opnuð 16. september.
Enn sem komið er hafa framkvæmdir gengið samkvæmt áætlun bæði hvað varðar tíma og kostnað að sögn Davíðs.
Heimild: Mbl.is