Home Fréttir Í fréttum Gera ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu

Gera ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu

27
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

„Ef sá samdráttur er heimfærður á markaðinn í heild má gera ráð fyrir að íbúðum í byggingu fækki úr 6.200 í um 5.100 á næstu 12 mánuðum.“

Fjöldi íbúða í byggingu fyrir almennan markað mun dragast umtalsvert saman á næstu 12 mánuðum samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins (SI) í júní.

Könnunin var lögð fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir á eigin vegum fyrir almennan markað og er unnin milli talninga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS) á íbúðum í byggingu.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar gera stjórnendur fyrirtækjanna ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu á næstu tólf mánuðum. Niðurstöðurnar benda til þess að hár fjármagnskostnaður sé mjög stór áhrifaþáttur þessa samdráttar, samkvæmt SI.

Heildarfjöldi íbúða í byggingu hjá fyrirtækjunum sem tóku þátt í könnuninni er 2.262, sem nemur 37% af öllum íbúðum í byggingu á landinu, samkvæmt tölum HMS. Ef áform fyrirtækjanna ganga eftir verða 1.873 íbúðir í byggingu eftir tólf mánuði.

Fyrirtækin hófu byggingu á 960 íbúðum á síðustu 12 mánuðum, sem er litlu minna en þau áforma að hefja á næstu 12 mánuðum, eða 1.142 íbúðir. Eftir 12 mánuði verða því 1.873 íbúðir í byggingu hjá þessum fyrirtækjum, sem er ríflega 17% samdráttur frá því sem nú er í byggingu.

Skjáskot af Vb.is

„Ef sá samdráttur er heimfærður á markaðinn í heild má gera ráð fyrir að íbúðum í byggingu fækki úr 6.200 í um 5.100 á næstu 12 mánuðum. Gangi þetta eftir mun íbúðum í byggingu halda áfram að fækka, en þær voru tæplega 8.800 í mars 2023 samkvæmt talningu HMS,“ segir í greiningunni.

„Þessi mikla fækkun íbúða í byggingu bíður heim hættu á íbúðaskorti litið til næstu ára sem heftir vaxtargetu hagkerfisins, eykur verðbólgu og kallar á hærri vexti.“

Skjáskot af Vb.is

Háir vextir dregið úr áformum flestra

Tæplega 86% stjórnenda segja að háir vextir hafi dregið úr áformum þeirra um íbúðauppbyggingu, en um 14% segja að þeir hafi ekki haft áhrif. Þá segja 81% að hár fjármögnunarkostnaður muni draga frekar úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, en 14% telja að það muni ekki gerast.

Þá kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að 76% stjórnenda telja að lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% hafi dregið úr íbúðauppbyggingu.

„Sú breyting tók gildi um mitt ár 2023 og er ljóst að hún á sinn þátt í fækkun íbúða í byggingu, líkt og Samtök iðnaðarins vöruðu við þegar þáverandi stjórnvöld kynntu áform um breytinguna.“

Ríflega 57% stjórnenda að framboð af lóðum hafi heft uppbyggingu íbúða hjá fyrirtækinu síðustu ár. Einnig segja tæplega 48% stjórnenda að verðhækkun aðfanga síðustu mánaða hafi dregið úr uppbyggingu íbúða hjá fyrirtækinu.

Að lokum segja ríflega 38% að hækkun launa starfsmanna síðustu mánaða hafi dregið úr áformum þeirra um uppbyggingu íbúða.

Heimild: Vb.is