Byggja á 85 íbúðir og bílastæðakjallara með 66 bílastæðum en engum ofanjarðar á lóðinni Skógarhlíð 16 samkvæmt tillögu að breyttu skipulagi fyrir lóðina. Um er að ræða lóðina sem er fyrir ofan björgunarmiðstöðina og aðstöðu slökkviliðsins í Skógarhlíð, en á lóðinni er jafnframt þekkt bensínstöð.
Hæsta bygging þyrpingarinnar yrði samkvæmt tillögunni fimm hæða há auk riss, eða 21 metri samtals. Til stendur að byggja leikvöll á lóðinni og að stæði fyrir 191 hjól verði á henni.
Einnig stendur til að bensín- og smurstöðvarbygging Orkunnar á reitnum, sem hönnuð var af Þór Sandholt og reist 1954, standi áfram, en árið 2023 var lagt til að húsið yrði friðað ásamt þremur öðrum bensínstöðvum.
Byggingin verður samkvæmt tillögunni endurnýjuð og virkjað í þágu íbúa hverfisins.

Henta vel til þéttingar byggðar
Í samgöngumati verkfræðistofunnar Eflu á vistvæna ferðamáta segir að íbúðabyggð í Hlíðahverfi henti vel fyrir bíllausan lífstíl. Einkabílaeign (1,2 bílar að meðaltali á heimili) mælist einna lægst í hverfinu og hlutfall bíllausra heimila (16%) einna hæst auk þess sem nauðsynleg þjónusta sé í göngufæri.
Mat stofunnar er því það að einungis þurfi 66 bílastæði í bílastæðakjallarann sem byggður verður á reitnum.
Uppbygging á öðrum reit Orkunnar við Birkimel hefur valdið usla, meðal annars vegna fyrirséðs bílastæðaskorts fyrir íbúðirnar þar sem einungis sex bílastæði verða byggð fyrir 42 íbúðir.

Svipaðra áhyggja má gæta á Facebook-hópnum Hlíðar – besta hverfið! vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Skógarhlíð, en þar verður fjöldi bílastæða á íbúð um 0,8.
Heimilt er að fækka stæðum niður í 44 ef allar mótvægisaðgerðir eru nýttar, en þá yrðu um 0,5 bílastæði á íbúð.
Tillaga var auglýst síðasta fimmtudag. Frestur til að skila inn athugasemdum við skipulagstillöguna inn í skipulagsgátt er til 15. ágúst næstkomandi.
Heimild: Mbl.is