Home Fréttir Í fréttum Tafir við frágang á nýja fangelsinu á Hólmsheiði

Tafir við frágang á nýja fangelsinu á Hólmsheiði

282
0
Mynd: VÍSIR/VILHELM

Boðuð var bylting í fangelsismálum, sú mesta frá árinu 1874 þegar nýtt fangelsi á Hólmsheiði var vígt 10. júní, en fram til þess tíma hafði sannkallað neyðarástand ríkt í fangelsismálum. En, heldur er tekin að þyngjast brúnin á fangelsismálastjóra, Páli Winkel, því verulegar tafir hafa orðið á verklokum. Þetta þýðir að allt skipulag sem snýr að afplánun er í uppnámi. Þarna verður aðstaða fyrir 56 fanga.

<>

„Það er seinkun á þessu og lítil sem engin vinna í gangi og ég sit með fangaverði sem ekkert hafa fyrir stafni,“ segir Páll Winkel í samtali við Vísi.

Páll segist með engu móti geta sett fram dagsetningu um hvenær fangelsið verði tekið í notkun þar sem verktakar klára ekki sitt.

„Þetta er mjög bagalegt og setur skipulag okkar úr skorðum. Framundan er nefnilega flókin vinna þar sem við munum boða marga til afplánunar og vinna á biðlistanum. Því liggur á að klára verkið.“

Þarna vinna rúmlega 20 fangaverðir en hluti þeirra er í sumarfríi. Það eru eins margir í fríum og mögulegt er að sögn Páls, sem reynir með því móti að draga úr tjóninu.

„Ég var búinn að sjá fyrir mér að fangelsið yrði fullklárað við afhendingu en það er bara ekki reyndin og ekki liggur fyrir hvenær við getum farið að vista fanga í fangelsinu. Það er vont þar sem nauðsynlegt er að boða dómþola inn með fyrirvara.

Öryggiskerfin eru ekki tilbúin og á meðan svo er verður allt í pattstöðu. Okkur liggur á að byrja á að vinna á boðunarlista í fangelsin,“ segir Páll.

Sá aðili sem hefur yfirumsjá með verkinu er Framkvæmdasýsla ríkisins. Þar er forstjóri Halldóra Vífilsdóttir.

Vísir náði tali af Halldóru og hún segir það rétt að lokafrágangur hafi dregist, þetta gangi ágætlega, hafi gengið ágætlega í sumar en nú sé verið að vinna við lokafrágang á öryggiskerfi.
„En, það er kannski lóðin, sem átti að vera tilbúin í lok maí, en það hefur aðeins dregist. Hefur gengið ágætlega en það hefur ekki dugað til. Það hafa verið gerðar athugasemdir, og úttekt á lóð hefur farið fram og það er verið að bregðast við því. Gengið hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir en þetta er á lokametrunum.“

Halldóra segir það annarra að svara fyrir um það nákvæmlega hvenær taka megi fangelsið í gagnið en í byrjun ágúst sér hún fyrir sér að hefja megi þjálfun starfsmanna á öryggiskerfinu. En verkið hafi verið unnið í ágætu samstarfi við fangelsismálastofnun.

Heimild: Visir.is