Sprengingar vegna framkvæmda dynja á íbúum í Laugarneshverfi í Reykjavík á klukkutímafresti. Íbúar eru orðnir þreyttir á ástandinu og segja meðal annars að allt nötri, hlutir hrynji úr hillum og sprungur myndist í veggjum.
Sprengingar vegna framkvæmda hafa gert íbúum í Laugarneshverfi í Reykjavík lífið leitt undanfarið. Svo leitt raunar að sumir hafa hugsað um að flytja sig um set. Byggingarstjóri segir að sprengt verði á lóðinni fram eftir næsta ári.
Við Sigtún í Laugarnesi rísa fjölbýlishús og verið að stækka Grand hótel. Verið er að sprengja fyrir bílakjallara undir bæði hús.
Sprengt á klukkutímafresti frá 9-16
Á klukkutímafresti allan daginn þurfa íbúar að venjast sprengingum. Frá níu á morgnana til fjögur á daginn, alltaf á heila tímanum.
„Það er viðvörunarflauta, þær koma þrjár og svo líður smá stund – og þessi smá stund maður er svolítið stressaður, maður veit ekki alveg hvað er að gerast og svo bara hnykkist húsið allt,“ segir Rósa Birgitta Ísfeld sem býr í Sigtúni – beint á móti framkvæmdunum.
Íbúar í Laugarneshverfi eru margir hverjir orðnir þreyttir á ástandinu. Á Facebook lýsir fólk því að allt nötri og skjálfi, hlutir hrynji úr hillum og að sprungur hafi myndast í veggjum.

Facebook / Skjáskot/samsett mynd
„Þetta er hálfgert stríðsástand“
„Með fullri virðingu, með því að nota stór orð, þetta er hálfgert stríðsástand, þó ég geti ekki sett mig í þau spor. Þetta er mikið rask fyrir okkur nágrannana, segir hún. Framkvæmdunum fylgi ekki bara hávaði heldur líka mikið ryk og annað miður skemmtilegt. „Ég er hérna beint á móti, ég er bara í víglínunni,“ segir Rósa
Og ástandið er slíkt að Rósa hefur hugsað um að flytja sig um set. „Það er alveg möguleiki að ég leiti annað. Fólkið sem býr fyrir ofan mig fer oft til Flateyjar og ég held þau séu stödd þar núna, ég held það sé mikil hvíld fyrir þau að vera þar,“ segir Rósa.
Lætin og sprengingarnar gætu varað í ár í viðbót
Verktakinn segist hafa látið íbúa í næsta nágrenni vita af látunum. En enn er nóg eftir af framkvæmdum, og sprengt verður í lotum út sumarið og lengur.
„Svo í haust munum við þá halda áfram að vinna við bílakjallarann sem er þá á milli þessara fjölbýlishúsa og svo á næsta ári þá þurfum við að halda svo áfram með á það sem snýr að Sigtúni,“ segir Ernir Brynjólfsson byggingarstjóri verksins.
„Þannig að þetta mun vara eitthvað áfram. Ég er smeykur um það.“
Svo þú ert að tala um jafnvel ár eða meira?
„Já, það er þannig,“ segir Ernir.
Heimild: Ruv.is