Misræmi á milli framboðs og eftirspurnar
Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur og teymisstjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir að þessi þróun hafi verið til skoðunar undanfarið hjá stofnuninni.
„Það er ákveðið misræmi á milli framboðs og eftirspurnar. Fólk vill alls konar íbúðir af alls konar stærðum og gerðum. Lang flestar af þessu nýju íbúðum eru á mjög þröngu stærðarbili. Þær eru allar í þessari miðstærð. Það vantar sárlega minni íbúðir, íbúðir sem eru minni en 80 fermetrar. Og líka íbúðir sem eru stærri en 130 fermetrar.“
Svo virðist sem markhópurinn fyrir eign í miðstærð sé nú þegar búinn að festa kaup á fasteign. Eftir standa fjölmargar óseldar íbúðir. Minni íbúðir myndu seljast hraðar og mælir HMS með frekari uppbyggingu þeirra.
„Kannski er fólk sem hefur takmarkaða kaupgetu, kannski vegna hárra vaxta eða takmarkaðra lánþegaskilyrða, sem gætu sætt sig við minni íbúðir en þær er ekki að finna á markaði.“
Verðbilið muni minnka
Jónas segir það tímaspursmál hvenær markaðurinn taki við sér. Mikið verðbil á milli nýrra og eldri íbúða muni minnka sem gæti einnig haft áhrif á leigumarkaðinn.
„Staðan hefur verið svartari á fasteignamarkaðnum, vissulega. Það er nóg af íbúðum á sölu og eftirspurnin er jákvæð. Ég myndi ekki segja að hún væri kolsvört. Með því að íbúðir seljast hægt þá mætti búast við því að verðhækkun á þessum íbúðum yrði hægari eða hún myndi kannski staðna. Til langs tíma fylgir fasteignaverð leiguverði.“
Eftir því sem vextir Seðlabankans lækka megi búast við að fleiri komist inn á húsnæðismarkaðinn.
„Við teljum ekki vera snjóhengju. Við höldum að það muni frekar malla áfram og halda áfram að vera mikil umsvif á fasteignamarkaðnum.“
Heimild: Visir.is