Home Fréttir Í fréttum 27 milljarða eigið fé

27 milljarða eigið fé

69
0
Fasteignaþróunarfélagið Arcus er í eigu Þorvaldar Gissurarsonar. Ljósmynd: BIG

Heildarhagnaður fasteignaþróunarfélagsins Arcus nam 6,9 milljörðum króna á árinu 2024.

Fasteignaþróunarfélagið Arcus, í eigu Þorvaldar Gissurarsonar, hagnaðist um 5,5 milljarða króna á árinu 2024.

Hagnaðurinn jókst um 831 milljón milli ára.

Þegar matsbreyting fasteigna í eigu félagsins er tekin inn í reikninginn nemur heildarhagnaður Arcus 6,9 milljörðum króna á árinu 2024 samanborið við 4,9 milljarða heildarhagnað árið áður.

Eigið fé samstæðunnar í árslok nam 26,9 milljörðum króna og jókst um þriðjung á milli ára.

Arcus jók hlutafé sitt í fjárfestingafélaginu Arcus Invest um milljarð króna undir lok síðasta árs.

Þá jók Arcus hlutafé sitt í Reykjastræti ehf. um 3,9 milljarða króna ásamt því að auka hlut sinn í félaginu úr 95% í 99%.

Á árinu keypti Reykjastræti félögin Hafnartorg Parking og Reykjavík Development af Arcusi og seldi 50% hlut í Reys apartments, nú Norðurdalur, til Arcusar. Arcus seldi einnig 48% hlut í félögunum ÞG Stálhöfða og ÞG Baughamri og stofnaði félagið ÞG Hnoðraholt með 52% hlut.

Arcus er systurfélag byggingafyrirtækisins ÞG verktaka, sem áðurnefndur Þorvaldur stofnaði árið 1998. ÞG verktakar, sem byggir fyrir systurfélög sín og í gegnum útboðsvinnu bæði fyrir opinbera aðila og stórfyrirtæki, hagnaðist um 632 milljónir króna á síðasta ári. Tekjur félagsins námu 9,6 milljörðum króna á árinu 2024.

Þorvaldur hefur að undanförnu fjárfest í auknum mæli í skráðum félögum. Þannig rataði Arcus Invest á dögunum á lista yfir 20 stærstu hluthafa Reita, en félagið fer með 7,4 milljónir hluta að nafnvirði, sem jafngildir 1,04% eignarhlut. Markaðsvirði hlutarins nemur um 770 milljónum króna þegar þessi grein er skrifuð.

Þá hefur Þorvaldur byggt upp stöðu í Sýn og fer með 4,37% eignarhlut í félaginu, sem metinn er á 271 milljón króna þegar þessi grein er skrifuð.

Heimild: Vb.is