
Nýr eigandi Faktorshússins á Flateyri hyggst flytja húsið úr sjávarplássinu og finna því nýjan stað annars staðar á landinu, annaðhvort á Vestfjörðum eða utan þeirra, þar sem það verður gert upp. Hann hefur mikla trú á húsinu, sem er sögufrægt en komið til ára sinna.
„Þetta er verðugt og skemmtilegt verkefni. Það á mikið inni þetta hús,“ segir eigandinn, sem leitar nú að nýrri lóð fyrir „höfðingjann“.
Faktorshúsið stendur við Hafnarbakka 5 á Flateyri. Húsið er á tveimur hæðum með risi og telur tæpa tvö hundruð fermetra. Það var byggt árið 1892 sem gerir það annað elsta hús bæjarins. Það á sér langa sögu og hefur gengið undir ýmsum nöfnum, þar á meðal Kaupfélagshús og Oddahús.
Húsið var upphaflega reist fyrir verslunarstjóra Ásgeirsverslunar á Ísafirði og var fyrst aðeins ein hæð með risi. Árið 1925 var það hækkað um aðra hæð. Húsið hýsti eitt sinn verbúð, og hlaut þá viðurnefnið Ástralía, en undanfarin ár hefur það verið heimili fyrir listatengda starfsemi.
Heimild: Mbl.is