Home Fréttir Í fréttum „Borgar­skipu­lag á að vera sniðið að þörfum íbúanna“

„Borgar­skipu­lag á að vera sniðið að þörfum íbúanna“

18
0
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita Ljósmynd: Eyþór Árnason

Forstjóri Reita segir þéttingarstefnu borgarinnar hafa verið nefnda „verktakablokkafaraldur“ þar sem magn hefur borið gæði ofurliði.

Guðni Aðal­steins­son, for­stjóri fast­eignafélagsins Reita, skrifar um áskoranir í húsnæðis­upp­byggingu á höfuð­borgar­svæðinu í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í vikunni.

Að hans mati blasir við að það þurfi að fjölga íbúðum en á sama tíma og tryggja á lífs­gæði íbúa og að nýbyggingar samræmist skipu­lagi nær­liggjandi hverfa.

Guðni bendir á að þrátt fyrir að 2.300 íbúðir hafi komið á markað á síðasta ári, sé það ekki nægi­legt til að anna eftir­spurn. Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun telji að byggja þurfi að minnsta kosti 2.900 íbúðir ár­lega. Hann bendir á að hátt vaxta­stig dragi úr fram­kvæmdum og að of fáar íbúðir séu nú í byggingu til að jafna það ójafn­vægi sem skapast hefur á markaði.

Þá nefnir hann að eftir­spurn eftir húsnæði sé ekki aðeins drifin áfram af fólks­fjölgun heldur einnig breyttri aldurs­sam­setningu þjóðarinnar. Hærri lífaldur og minni heimilis­stærð kalli á fjöl­breyttara húsnæði og betri nýtingu byggðar.

Í því sam­hengi ræðir hann þéttingu byggðar og þá gagn­rýni sem hún hefur sætt. Hann vísar til þess að sumir hafi kallað hana „verk­taka­blokka­far­aldur“ þar sem magn hafi borið gæði ofur­liði.

„Það er skoðun okkar að borgar­skipu­lag eigi að vera sniðið að þörfum íbúanna en ekki öfugt,“ skrifar Guðni og leggur áherslu á að vel megi þétta byggð án þess að fórna gæðum, svo framar­lega sem fag­mennska og sam­hengi svæða sé haft að leiðar­ljósi.

Í grein sinni segir hann frá upp­byggingu reita á fjölmörgum stöðum á höfuð­borgar­svæðinu, þar á meðal á Kringlu­reit, þar sem um 420 íbúðir eru í undir­búningi. Upp­byggingin þar sé hönnuð í samræmi við staðla BREEAM-vist­vottunar­kerfisins og lögð sé áhersla á birtu, hljóðvist og mann­væna hönnun. „Hönnunin er inn­blásin af eldri byggð Reykja­víkur, húsin eru fjöl­breytt að stærð og gerð, með mis­háum risþökum og óreglu­legum vist­götum kringum miðju­sett torg,“ skrifar Guðni.

Einnig nefnir hann að félagið sé með áform um byggingu á Múlareit og í Skeifunni, þar sem sam­tals verði reistar um 170 íbúðir. Þá sé einnig unnið að þróun nýs at­vinnu­svæðis í Korputúni við Vestur­lands­veg, sem verði það fyrsta á landinu sem hannað verði í samræmi við vist­vottunar­kerfi BREEAM fyrir at­vinnu­húsnæði. Þar verði sjálf­bærar regn­vatns­lausnir, mengunar­varnir og líf­fræði­leg fjöl­breytni höfð í fyrir­rúmi.

Guðni lýsir því að Reitir hafi bæði burði og vilja til að leggja sitt af mörkum í upp­byggingu borgarinnar. „Við leggjum í því verk­efni áherslu á gæði og að skapa um­hverfi þar sem at­vinnu- og mann­líf getur blómstrað,“ skrifar hann.

Heimild: Vb.is