Forstjóri Reita segir þéttingarstefnu borgarinnar hafa verið nefnda „verktakablokkafaraldur“ þar sem magn hefur borið gæði ofurliði.
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita, skrifar um áskoranir í húsnæðisuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í vikunni.
Að hans mati blasir við að það þurfi að fjölga íbúðum en á sama tíma og tryggja á lífsgæði íbúa og að nýbyggingar samræmist skipulagi nærliggjandi hverfa.
Guðni bendir á að þrátt fyrir að 2.300 íbúðir hafi komið á markað á síðasta ári, sé það ekki nægilegt til að anna eftirspurn. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að byggja þurfi að minnsta kosti 2.900 íbúðir árlega. Hann bendir á að hátt vaxtastig dragi úr framkvæmdum og að of fáar íbúðir séu nú í byggingu til að jafna það ójafnvægi sem skapast hefur á markaði.
Þá nefnir hann að eftirspurn eftir húsnæði sé ekki aðeins drifin áfram af fólksfjölgun heldur einnig breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Hærri lífaldur og minni heimilisstærð kalli á fjölbreyttara húsnæði og betri nýtingu byggðar.
Í því samhengi ræðir hann þéttingu byggðar og þá gagnrýni sem hún hefur sætt. Hann vísar til þess að sumir hafi kallað hana „verktakablokkafaraldur“ þar sem magn hafi borið gæði ofurliði.
„Það er skoðun okkar að borgarskipulag eigi að vera sniðið að þörfum íbúanna en ekki öfugt,“ skrifar Guðni og leggur áherslu á að vel megi þétta byggð án þess að fórna gæðum, svo framarlega sem fagmennska og samhengi svæða sé haft að leiðarljósi.
Í grein sinni segir hann frá uppbyggingu reita á fjölmörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal á Kringlureit, þar sem um 420 íbúðir eru í undirbúningi. Uppbyggingin þar sé hönnuð í samræmi við staðla BREEAM-vistvottunarkerfisins og lögð sé áhersla á birtu, hljóðvist og mannvæna hönnun. „Hönnunin er innblásin af eldri byggð Reykjavíkur, húsin eru fjölbreytt að stærð og gerð, með misháum risþökum og óreglulegum vistgötum kringum miðjusett torg,“ skrifar Guðni.
Einnig nefnir hann að félagið sé með áform um byggingu á Múlareit og í Skeifunni, þar sem samtals verði reistar um 170 íbúðir. Þá sé einnig unnið að þróun nýs atvinnusvæðis í Korputúni við Vesturlandsveg, sem verði það fyrsta á landinu sem hannað verði í samræmi við vistvottunarkerfi BREEAM fyrir atvinnuhúsnæði. Þar verði sjálfbærar regnvatnslausnir, mengunarvarnir og líffræðileg fjölbreytni höfð í fyrirrúmi.
Guðni lýsir því að Reitir hafi bæði burði og vilja til að leggja sitt af mörkum í uppbyggingu borgarinnar. „Við leggjum í því verkefni áherslu á gæði og að skapa umhverfi þar sem atvinnu- og mannlíf getur blómstrað,“ skrifar hann.
Heimild: Vb.is