Nýtt torg við Hlemm á að vera tilbúið á næsta ári. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur segir erfitt að hraða framkvæmdum. Mikið sé um gamlar lagnir undir götum sem þurfi að endurnýja. Heildarkostnaður er ríflega tveir milljarðar.
Hlemmur hefur lengi verið samkomustaður og einn af miðpunktum borgarlífsins. Hann hlýtur nú enn á ný endurnýjun lífdaga því þar er unnið að því að stækka torgið.
Framkvæmdir við Hlemm hafa staðið yfir með hléum frá árinu 2022, þessi áfangi hófst í apríl.
Bílarnir farnir
Nýja torgið á að ná upp að húsunum við Þverholt, með fram Center hotels og afmarkast af Hverfisgötu að norðan. Þar eiga meðal annars að vera hjólastígar, leiksvæði fyrir börn og svið.
„Hlemmur er að verða Hlemm-torg. Bílarnir eru jú farnir þannig að stóra breytingin er orðin. Við erum að klára breytingar sem varða til dæmis að halda utan um sögu svæðisins,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur
„Stóru breytingarnar sem eru að vera hér á torginu eru að raungerast á þessu og næsta ári, svo munum við halda áfram ákveðinni þróun á jaðarsvæðunum í kring,“ segir Dóra Björt.

Guðmundur Bergkvist
Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að öllum framkvæmdum yrði lokið um áramótin en Dóra Björt segir ljóst að framkvæmdir við Þverholt og Rauðarárstíg sunnan Laugavegar klárast ekki á þessu ári.

Guðmundur Bergkvist
Hefur þetta tekið of langan tíma?
„Það er spurning hvort þetta hefði átt að ganga hraðar. En þetta var mjög umfangsmikil aðgerð af því það voru mjög miklar lagnaframkvæmdir sem voru hluti af þessu þá er bara erfitt að láta þetta ganga mikið hraðar.“
Elstu lagnirnar á Hlemmi voru frá 1920 og því kominn tími á þær.
„Við viljum alltaf að hlutirnir ganga eins hratt og mögulegt er,“ segir Dóra Björt.
„Ég veit að þetta hefur haft áhrif á rekstraraðila á svæðinu, það getur auðvitað verið óþægilegt að búa við framkvæmdir yfir einhvern tíma þannig það er alltaf spurning með tímasetningar, hvenær við eigum að fara í þetta og annað. En aðilar munu græða mikið á þessu og þetta mun halda utan um þá þegar þetta er komið.“
Heimild: Ruv.is