
Kjötvinnsla í vöruhúsi við Álfabakka getur haft í för með sér ónæði, mengun og álag á fráveitu. Þetta kemur fram í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skipulagstofnun hefur þrjár vikur til að ákvarða hvort starfsemin sé háð umhverfismati.
Vöruhúsið við Álfabakka er um 11 þúsund fermetrar og þriðjungur þess er ætlaður undir kjötvinnslu. Þrátt fyrir óánægju íbúa í nágrenninu leit allt út fyrir að kjötvinnslan yrði að veruleika. Þar til í lok janúar þegar framkvæmdir voru stöðvaðar þar sem ekki lá fyrir hvort starfsemin væri háð umhverfismati.
Skipulagsstofnun hefur nú, eftir að frestur til að skila umsögnum rann út, þrjár vikur til að ákveða hvort kjötvinnslan skuli háð umhverfismati. Umsagnir eru aðgengilegar í skipulagsgátt.
Borgin segir heimild fyrir léttum iðnaði eða hreinlegri starfsemi
Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er farið yfir hvort kjötvinnsla falli undir stefnu um landnotkun í Suður-Mjódd. Þar segir að heimild sé fyrir fjölbreyttri þjónustu- og verslunarstarfsemi ásamt léttum iðnaði eða hreinlegri atvinnustarfsemi.
Ekki tiltekið sérstaklega að ákveðin starfsemi sé alfarið bönnuð, t.a.m. léttur iðnaður eða og/eða hreinleg atvinnustarfsemi að margvíslegu tagi“
Gæta þurfi vel að hönnun og útfærslu
Í niðurlagi skipulagsfulltrúans segir að kjötvinnsla, sem veldur óverulegum umhverfisáhrifum, jafnvel þó nokkuð umfangsmikil sé, og annar sambærilegur þrifalegur iðnaður, á takmörkuðum hluta viðkomandi svæðis er talin geta samræmst gildandi heimildum.
Gæta þurfi vel að hönnun og útfærslu starfseminnar og umhverfisáhrifum vegna mögulegrar nálægðar við íbúðarbyggð.
Kjötvinnsla ekki „léttur iðnaður“ – ónæði, mengun og álag
Í umsögn Heilbrigðiseftirlitsins er hnýtt í skilgreiningar skipulagsfulltrúans og gerð athugasemd við að starfsemi stórrar kjötvinnslu sé talin flokkast sem „léttur iðnaður“.
Hvergi sé skilgreining á því í lögum og reglugerðum hvað teljist léttur iðnaður.
Heilbrigðiseftirlitið telur starfsemina vera mjög umfangsmikla, hún getur haft í för með sér ónæði, mengun og álag á fráveitu.
Þar af leiðandi sé hæpið að flokka hana sem léttan iðnað.
Kvartað hafi verið yfir kjötvinnslu Haga í Síðumúla
Kjötvinnslan á að vera endurnýjun á eldri kjötvinnslu í eigu Haga sem rekin er í Síðumúla. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins er því tekið fram ekki sé rétt að kjötvinnslan í Síðumúla 34 hafi starfað án vandkvæða í nágrenni við íbúðarbyggð. Eftirlitið hafi móttekið kvartanir vegna hávaða frá vöruafgreiðslu, losun úrgangsgáma og frá kæliviftum utan á húsinu. Ónæðiskvartanir hafi helst verið bundnar við næturtímann.
Í báðum umsögnunum eru athugasemdir við kjötvinnsluna en niðurstaðan er þó sú að ekki sé talin þörf á umhverfismati.
Heimild: Ruv.is