
HS Orka borar nú tveggja kílómetra langa tilraunarborholu í Krýsuvík í von um að rannsóknin leiði til framleiðslu á heitu vatni fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið auk rafmagns inn á landskerfið.
Í gærmorgun hóf HS Orka að bora fyrstu djúpu rannsóknarborholuna við Sveifluháls í Krýsuvík en borunin er hluti af jarðhitarannsóknum orkufyrirtækisins á Krýsuvíkursvæðinu. Öllum yfirborðsrannsóknum er lokið og nú taka við rannsóknir með djúpborun.
Þetta kemur fram í tilkynningu en Krýsuvíkursvæðið hefur hingað til verið metið hátt sem jarðhitasvæði til nýtingar fyrir orkuvinnslu.
Áætla að bora 2.750 m holu
Áætlað er að stefnubora allt að 2.750 metra langa holu niður á ríflega tveggja kílómetra dýpi undir Sveifluhálsinn til norðvesturs.
Markmiðið er að auka þekkingu á jarðhitakerfinu, sannreyna tilvist háhitaauðlindar og meta nýtingu hennar á svæðinu Sveifluháls – Austurengjar, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Hafnarfjarðarbær er eigandi þess hluta Krýsuvíkursvæðisins sem rannsóknirnar fara fram á.
Heimild: Mbl.is