Home Fréttir Í fréttum Kínversk rannsóknastöð rís á sveitabæ í Þingeyjarsýslu

Kínversk rannsóknastöð rís á sveitabæ í Þingeyjarsýslu

135
0
GRAFÍK/AURORA OBSERVATORY

Kínversk rannsóknastöð rís nú á sveitabæ skammt frá Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Heimskautastofnun Kína hyggst rannsaka þar norðurljósin í samstarfi við íslenskar vísindastofnanir. Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, voru sýndar myndir af framkvæmdunum og teikningar af stöðinni, eins og hún mun líta út fullbúin.

<>

Við hringveginn í Reykjadal, tvo kílómetra sunnan Laugaskóla, stendur jörðin Kárhóll og þar sjáum við byggingarkrana, steypudælu og steypubíl.

Fyrirtækið SS-byggir á Akureyri er að steypa upp sjöhundruð fermetra rannsóknahús fyrir íslenska sjálfseignarstofnun, Aurora Observatory, sem atvinnuþróunarfélög Eyfirðinga og Þingeyinga stofnuðu ásamt fleirum.

Félagið keypti jörðina fyrir 80 milljónir króna og reisir bygginguna fyrir yfir 300 milljónir króna. Kostnaðurinn verður greiddur með leigutekjum frá Heimskautastofnun Kína.

Verkefnið hófst í framhaldi af samstarfssamningi íslenskra og kínverska stjórnvalda árið 2012 um norðurslóðir en þar var meðal annars gert ráð fyrir þeim möguleika að koma á fót norðurljósaathuganastöð á Íslandi.
Kínversk fjárfesting í þingeyskum sveitadal hefur hins vegar vakið tortryggni hjá sumum, sem hafa spurt hvort hér sé eitthvað annað á ferðinni en saklaus norðurljósarannsóknastöð.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, segir þessa tortryggni hins vegar algerlega óþarfa. Íslenskar vísindastofnanir verði í samstarfi við þá kínversku, þeirra á meðal Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands og Háskólinn á Akureyri. Stöðin verði jafnframt opin vísindamönnum annarra þjóða. Þá sé ráðgert að hafa gestastofu í húsinu sem verði opin almenningi.

Reinhard segir stöðina skapa ómæld tækifæri fyrir alþjóðlegt vísindasamstarf, en einnig fyrir norðurljósaferðamennsku á Norðurlandi. Þá stuðli hún beint og óbeint að fjölbreyttara atvinnulífi í héraðinu. Áformað er að starfsemin hefjist fyrir lok þessa árs en húsið verður þó ekki fullbyggt fyrr en á næsta ári.

Heimild: Visir.is