Home Fréttir Í fréttum „Ekki gott að byggja upp einhver gettó“

„Ekki gott að byggja upp einhver gettó“

40
0
Elísabet segir íbúa ekkert hafa á móti félagslegu húsnæði, en það verði að vera eðlileg blanda af húsnæði. mbl.is

„Þetta er alls ekki að hugn­ast íbú­um og við ger­um kröfu um það að all­ir innviðir verði lagaðir, bæði um­ferðarmann­virki, skól­ar, leik­skól­ar og önn­ur þjón­usta, áður en það verður farið í það hreyfa við því að byggja fleiri íbúðir. Nú þegar er allt um­ferðar­kerfið sprungið,“ seg­ir Elísa­bet Gísla­dótt­ir, formaður íbúa­sam­taka Grafar­vogs, í sam­tal við mbl.is um vil­yrði meiri­hluta borg­ar­ráðs fyr­ir þétt­ingu byggðar í Grafar­vogi með fé­lags­legu hús­næði.

Íbúa­sam­tök­in og full­trú­ar allra hverfa í Grafar­vogi hafa óskað eft­ir fundi með borg­ar­stjóra vegna máls­ins, en við því hef­ur ekki verið brugðist að sögn Elísa­bet­ar.

Greint var frá mál­inu á mbl.is í fyrradag og einnig fjallað um það í Morg­un­blaðinu í gær.

Hélt þetta væri úr­elt fyr­ir­komu­lag

Meiri­hlut­inn samþykkti að veita Fé­lags­bú­stöðum vil­yrði fyr­ir bygg­ing­ar­rétti á allt að átta íbúðum á nýju þró­un­ar­svæði við Hvera­fold 7. Á sama þró­un­ar­svæði var samþykkt að veita Bjargi íbúðafé­lagi vil­yrði fyr­ir bygg­ing­ar­rétti á allt að 16 íbúðum.

Einnig var samþykkt að veita Bjargi íbúðafé­lagi vil­yrði fyr­ir bygg­ing­ar­rétti á allt að 18 íbúðum á nýju þró­un­ar­svæði við Star­engi og vil­yrði fyr­ir bygg­ing­ar­rétti á allt að 14 íbúðum á nýju þró­un­ar­svæði við Veg­hús.

Þá samþykkti meiri­hlut­inn að veita Bú­seta hús­næðis­sam­vinnu­fé­lagi vil­yrði fyr­ir bygg­ing­ar­rétti á allt að 52 íbúðum á nýju þró­un­ar­svæði við Sól­eyj­arima.

„Það eitt og sér þá hélt ég að það væri löngu orðið úr­elt að setja all­ar fé­lags­leg­ar íbúðir á sama staðinn og sama reit­inn, þannig það er mjög sér­stakt,“ seg­ir Elísa­bet.

Alls ekki það sem fólk get­ur sætt sig við

„Fyr­ir utan að það er mjög sér­stakt að nú er verið að bíða eft­ir því að klára að senda inn at­huga­semd­ir við þess­um breyt­ing­um sem voru kynnt­ar á mjög mikl­um hita­fundi uppi í Grafar­vogi,“ seg­ir hún og vís­ar til fund­ar sem hald­inn var 20. mars síðastliðinn.

„Þar var fólk mjög ósátt við niður­stöðurn­ar og þetta var alls ekki það sem fólk hafði í huga eða gæti sætt sig við.“

Frest­ur til að skila inn at­huga­semd­um var 11. apríl, en gef­inn hef­ur verið lengri frest­ur fram til 5. maí til að koma at­huga­semd­um á fram­færi.

„Frá því fund­ur­inn var hald­inn höf­um við í stjórn íbúa­sam­tak­anna og aðgerðar­hóp­ur sem í eru full­trú­ar allra hverfa óskað eft­ir fundi með borg­ar­stjóra en hún hef­ur ekki getað séð sér fært að tala við okk­ur,“ seg­ir Elísa­bet.

„Það virðist ekki vera þannig að fólk vilji neitt tala við okk­ur,“ bæt­ir hún við.

Ef hóp­ur­inn fær ekki vil­yrði fyr­ir fundi með borg­ar­stjóra í dag verður blásið til fé­lags­fund­ar íbúa­sam­tak­anna þar sem verður farið yfir mál­in með íbú­um og næstu skref­um velt upp.

Ráðist á öll hverfi Grafar­vogs í einu

Í svari Heiðu Bjarg­ar Hilm­is­dótt­ur borg­ar­stjóra til Morg­un­blaðsins seg­ir að til­lög­urn­ar hafi verið end­ur­skoðaðar veru­lega í kjöl­far at­huga­semda íbúa. Bygg­ing­ar­magn hafi verið minnkað og íbúðum fækkað um þriðjung.

Elísa­bet seg­ir það hins veg­ar alls ekki nóg. Sam­talið verði að eiga sér stað. Verið sé að ráðast á öll hverfi í Grafar­vogi í einu í stað þess að ganga skipu­lega til verks og ræða við íbúa hvers hverf­is fyr­ir sig, sem séu sér­fræðing­ar í sínu nærum­hverfi.

„Þessu var eitt­hvað tvístrað, en málið er að það kom vel fram að þetta voru mjög van­hugsaðar til­lög­ur. Það var ekki rétt farið með eða sam­ræmi á milli talna sem voru kynnt­ar á fund­in­um og voru í þeim gögn­um sem lágu í skipu­lags­gátt­inni.“

„Í Grafar­vog­in­um þurf­um við bíla“

Elísa­bet seg­ir íbúa­sam­tök­in ekk­ert hafa út á fé­lags­legt hús­næði að setja, en það þurfi að vera eðli­leg blanda af fé­lags­legu og öðru hús­næði.

„Það er ekki gott að byggja upp ein­hver gettó.“

Þá sé líka mjög baga­legt að byggðar séu blokk­ir þar sem ekki fylgi bíla­stæði með hverri íbúð. Það komi bara niður á um­hverf­inu í kring.

„Þá er lagt á bíla­stæðum hjá ná­grönn­un­um og inn á versl­un­ar­miðstöðvum og öðru. Borg­ar­bú­ar eru farn­ir að upp­lifa að það sé farið að troða niður íbúðum með ein­hverri ofurþétt­ingu og fólk er að upp­lifa bíla­stæðakvíða. Við þurf­um að kom­ast á milli. Í Grafar­vog­in­um þurf­um við bíla,“ seg­ir Elísa­bet.

„Við ósk­um eft­ir því að það verði felld niður öll vinna fram að næstu kosn­ing­um. Málið verði þá tekið upp á nýtt skoðað frá grunni.“

Heimild: Mbl.is