
„Þetta er alls ekki að hugnast íbúum og við gerum kröfu um það að allir innviðir verði lagaðir, bæði umferðarmannvirki, skólar, leikskólar og önnur þjónusta, áður en það verður farið í það hreyfa við því að byggja fleiri íbúðir. Nú þegar er allt umferðarkerfið sprungið,“ segir Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, í samtal við mbl.is um vilyrði meirihluta borgarráðs fyrir þéttingu byggðar í Grafarvogi með félagslegu húsnæði.
Íbúasamtökin og fulltrúar allra hverfa í Grafarvogi hafa óskað eftir fundi með borgarstjóra vegna málsins, en við því hefur ekki verið brugðist að sögn Elísabetar.
Greint var frá málinu á mbl.is í fyrradag og einnig fjallað um það í Morgunblaðinu í gær.
Hélt þetta væri úrelt fyrirkomulag
Meirihlutinn samþykkti að veita Félagsbústöðum vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að átta íbúðum á nýju þróunarsvæði við Hverafold 7. Á sama þróunarsvæði var samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 16 íbúðum.
Einnig var samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 18 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Starengi og vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 14 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Veghús.
Þá samþykkti meirihlutinn að veita Búseta húsnæðissamvinnufélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 52 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Sóleyjarima.
„Það eitt og sér þá hélt ég að það væri löngu orðið úrelt að setja allar félagslegar íbúðir á sama staðinn og sama reitinn, þannig það er mjög sérstakt,“ segir Elísabet.
Alls ekki það sem fólk getur sætt sig við
„Fyrir utan að það er mjög sérstakt að nú er verið að bíða eftir því að klára að senda inn athugasemdir við þessum breytingum sem voru kynntar á mjög miklum hitafundi uppi í Grafarvogi,“ segir hún og vísar til fundar sem haldinn var 20. mars síðastliðinn.
„Þar var fólk mjög ósátt við niðurstöðurnar og þetta var alls ekki það sem fólk hafði í huga eða gæti sætt sig við.“
Frestur til að skila inn athugasemdum var 11. apríl, en gefinn hefur verið lengri frestur fram til 5. maí til að koma athugasemdum á framfæri.
„Frá því fundurinn var haldinn höfum við í stjórn íbúasamtakanna og aðgerðarhópur sem í eru fulltrúar allra hverfa óskað eftir fundi með borgarstjóra en hún hefur ekki getað séð sér fært að tala við okkur,“ segir Elísabet.
„Það virðist ekki vera þannig að fólk vilji neitt tala við okkur,“ bætir hún við.
Ef hópurinn fær ekki vilyrði fyrir fundi með borgarstjóra í dag verður blásið til félagsfundar íbúasamtakanna þar sem verður farið yfir málin með íbúum og næstu skrefum velt upp.
Ráðist á öll hverfi Grafarvogs í einu
Í svari Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra til Morgunblaðsins segir að tillögurnar hafi verið endurskoðaðar verulega í kjölfar athugasemda íbúa. Byggingarmagn hafi verið minnkað og íbúðum fækkað um þriðjung.
Elísabet segir það hins vegar alls ekki nóg. Samtalið verði að eiga sér stað. Verið sé að ráðast á öll hverfi í Grafarvogi í einu í stað þess að ganga skipulega til verks og ræða við íbúa hvers hverfis fyrir sig, sem séu sérfræðingar í sínu nærumhverfi.
„Þessu var eitthvað tvístrað, en málið er að það kom vel fram að þetta voru mjög vanhugsaðar tillögur. Það var ekki rétt farið með eða samræmi á milli talna sem voru kynntar á fundinum og voru í þeim gögnum sem lágu í skipulagsgáttinni.“
„Í Grafarvoginum þurfum við bíla“
Elísabet segir íbúasamtökin ekkert hafa út á félagslegt húsnæði að setja, en það þurfi að vera eðlileg blanda af félagslegu og öðru húsnæði.
„Það er ekki gott að byggja upp einhver gettó.“
Þá sé líka mjög bagalegt að byggðar séu blokkir þar sem ekki fylgi bílastæði með hverri íbúð. Það komi bara niður á umhverfinu í kring.
„Þá er lagt á bílastæðum hjá nágrönnunum og inn á verslunarmiðstöðvum og öðru. Borgarbúar eru farnir að upplifa að það sé farið að troða niður íbúðum með einhverri ofurþéttingu og fólk er að upplifa bílastæðakvíða. Við þurfum að komast á milli. Í Grafarvoginum þurfum við bíla,“ segir Elísabet.
„Við óskum eftir því að það verði felld niður öll vinna fram að næstu kosningum. Málið verði þá tekið upp á nýtt skoðað frá grunni.“
Heimild: Mbl.is