Fasteignafélagið Íþaka áformar að hefja í haust uppbyggingu 304 herbergja hótels í Borgartúni í Reykjavík.
Jóhann Sigurðsson, sem rekur Hótel Cabin í Borgartúni, Hótel Örk í Hveragerði og Hótel Klett í Mjölnisholti, mun reka hótelið sem áformað er að opna vorið 2028.
„Við erum með sérleyfi frá Marriott og ætlum að opna hér Moxy-hótel, sem er það vörumerki innan Marriott-keðjunnar sem hefur vaxið hraðast síðustu ár,“ segir Jóhann um áformin.
Fjármögnun tryggð
Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku, segir búið að tryggja fjármögnun vegna þessarar uppbyggingar en heildar fjárfestingarkostnaður er um 10,5 milljarðar króna án virðisaukaskatts.

Íþaka leigir nú Íslandshótelum hótelturninn á Höfðatorgi. Þá leigir félagið CenterHótelunum hótelbygginguna á horni Laugarvegar og Snorrabrautar.
Marriott hefur þegar haslað sér völl á Íslandi. Hótelkeðjan er með Edition-lúxushótelið við Hörpu í Reykjavík og Courtyard-hótelið á Aðaltorgi, gegnt Keflavíkurflugvelli.
Fulltrúar Marriott spenntir
Alex Steinbach, forstöðumaður hótelþróunar á Norðurlöndum hjá Marriott, segist í tilkynningu spenntur fyrir verkefninu.

„Við erum spennt að kynna Moxy hótelkeðjuna til Reykjavíkur. Moxy býður upp á skemmtilega og félagslega upplifun sem hentar fullkomlega bæði Íslendingum og erlendum gestum sem leita að líflegri og óhefðbundinni gistingu. Þetta verkefni sýnir áframhaldandi vöxt Marriott hótela á Norðurlöndunum og styrk Marriott Bonvoy vildarkerfisins. Við erum afar þakklát fyrir náið samstarf okkar við Cabin ehf. og fasteignafélagið Íþöku ehf. og hlökkum til þessa spennandi ferðalags saman,“ sagði Steinbach í tilkynningu til blaðsins.
Fjallað er um hótelið í blaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is