Skýrslan fjallar um mansal á heimsvísu. Samkvæmt henni eru konur frá Austur-Evrópu, Eystrasaltsríkjunum, Vestur-Afríku og Brasilíu fluttar hingað til að stunda vændi á börum og næturklúbbum. Þrælar af báðum kynjum frá Afríku, Austur-Evrópu, Suður-Ameríku og Suður- og Austur-Asíu eru fluttir hingað til að stunda nauðungarvinnu við byggingariðnað, fiskvinnslu, ferðaþjónustu og á veitingastöðum.
Í skýrslunni kemur fram að erlendir starfsmenn sem starfa tímabundið utan lögbærs ríkis (e. posted workers) séu í sérstakri hættu á vera þvingaðir til vinnu hér á landi. Ástæða þess er að þrælahaldarar greiða laun þeirra í heimalandi viðkomandi og gera samning upp á að þeir vinni á Íslandi í allt að 183 daga. Þannig forðast þeir skatta og stéttarfélagsgjöld hér sem gerir það að verkum að erfiðara er fyrir íslenska eftirlitsaðila að fylgjast með vinnuskilyrðum og launum.
Samkvæmt skýrslunni nýta þrælahaldarar sér að ekki er þörf á vegabréfsáritun innan Schengen-samstarfsins og EES. Þannig geta þeir haldið þrælum hér í allt að þrjá mánuði áður en viðkomandi þarf að fá dvalarleyfi. Í skýrslu er gagnrýnt að í þriðja árið í röð hefur enginn grunaður þrælahaldari verið ákærður eða dæmdur á Íslandi.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna kemur með tillögur um úrbætur í málaflokknum. Þar er lögð áhersla á að auka umtalsvert þjálfun lögreglu, saksóknara og dómara í að þekkja einkenni mansals. Ráðuneytið leggur til að áhersla sé lögð á byggja upp traust á milli lögreglu og þolendum mansals með því að veita þeim skjól og atvinnuleyfi.
Heimild: Ruv.is