Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Sigöldustöð stækkuð

Sigöldustöð stækkuð

77
0
Tölvugerð mynd af Sigöldustöð eftir stækkun. Fjórða vélin verður staðsett í nýjum hluta stöðvarinnar lengst til hægri

Unnið er að stækkun Sigöldustöðvar í Þjórsá. Framkvæmdaleyfi voru veitt hinn 27. febrúar sl. vegna undirbúningsverkefna og 7. mars sl. vegna stækkunarinnar sjálfrar.

Stækkun um allt að 65 MW

Sigöldustöð verður stækkuð um allt að 65 MW með því að bæta við fjórðu vélinni í inntaksmannvirki, sem og fjórðu þrýstipípunni. Eftir stækkun er gert ráð fyrir að virkjunin skili allt að 215 MW afli, í stað þeirra 150 MW sem hún býr nú að. Stöðin, sem var tekin í notkun árið 1978, var hönnuð á þann veg að hægt yrði að stækka hana síðar.

Sigöldustöð í dag. Inntaksmannvirki bætist við stöðina hægra megin.

Í mars var byrjað á undirbúningi af ýmsum toga. Nú verður hafist handa við vatnsöflun fyrir vinnubúðasvæði. Gert er ráð fyrir að starfsfólk Landsvirkjunar og verktaka á svæðinu verði samtals um 140 þegar flest verður.

Ýmiss konar undirbúningur verður í vor og sumar. Undirbúa þarf svæði fyrir vinnubúðir, leggja þangað rafmagn og ljós, setja upp fjarskiptamastur, koma fyrir ýmsum skiltum og svo mætti lengi telja. Framkvæmdir við sjálfa stækkun Sigöldustöðvar hefjast hins vegar í haust. Þá verður byrjað að grafa fyrir stækkun stöðvarhússins til að koma fjórðu vélinni þar fyrir.

Verklok eru fyrirhuguð haustið 2028.

Heimild: Landsvirkjun.is