
Fjárframlög til samgöngumála hækka um tæpa 8 milljarða króna næstu fimm árin. Á næsta ári fara 7 milljarðar í vegabætur, viðhald og þjónustu en Vegagerðin hefur enn ekki fengið fregnir af auknu fé í viðhald á þessu ári.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun kemur fram að árleg framlög til samgöngumála verði aukin úr 66 milljörðum króna í ár í 74 milljarða árið 2030.
Á blaðamannafundi sagði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, að strax á næsta ári bættust við 7 milljarðar í viðhald og þjónustu. Þetta samsvaraði því sem búast mætti við að kæmi í ríkiskassann vegna breytinga á útreikningi veiðigjalds: „Það liggur fyrir að til þess að fara í eðlilegt viðhald á næsta ári og eðlilegt þjónustu vega þá vantar í kringum 7 milljarða.“
Í samtali við fréttastofu sagðist Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, fagna auknum fjárveitingum. Ekki er ljóst hvort Vegagerðin fái meira fjármagn í viðhald á þessu ári. Sumarið er helsti framkvæmdatími Vegagerðarinnar og til þess að hægt sé að sinna viðhaldi í ár þarf undirbúningur að hefjast upp úr páskum.
Í fjármálaáætlun kemur einnig fram að ríkisstjórnin hyggist stofna innviðafélag sem gæti fjármagnað stórar samgönguframkvæmdir, með hliðsjón af reynslu nágrannaríkja. Slíkt félag gæti aflað tekna af samgönguinnviðum sem nýttust í framkvæmdir og tekið lán með veði í framtíðartekjum.
Kristrún tók fram að ef vel gengi með innviðafélagið þá gæti opnast tækifæri á frekari slík verkefni.
„Við eru nú með mjög fjársterka aðila, lífeyrissjóðina, sem kannski hafa áhuga á að koma inn og það verður gert allt sem hægt er að gera til þess að virkja þá,“ sagði Kristrún.
Heimild: Ruv.is