
Framkvæmdir við nýjan þjóðveg þvert yfir Hornafjörð skotganga og stefnir í að umferð verði hleypt á nýja Hornafjarðarfljótsbrú eftir átta mánuði. Við það styttist hringvegurinn um tólf kílómetra.
Gamla brúin yfir Hornafjarðarfljót er orðin 64 ára gömul, byggð 1961, en hún var á þeim tíma sú næstlengsta á Íslandi, 255 metra löng. En hún er fyrir löngu orðin barn síns tíma, einbreið, sem veldur því að aðeins er hægt að aka yfir hana í aðra áttina í einu.

Egill Aðalsteinsson
En núna er verið að leggja nýja leið mun nær sjónum. Á drónamyndum Egils Aðalsteinssonar sjáum við hvar sveigt verður af núverandi þjóðvegi yfir á þann nýja þegar ekið er frá Mýrum í austurátt til Hornafjarðar.

Egill Aðalsteinsson
Um fimmtíu manns hafa unnið að verkinu á vegum verktakans Ístaks, sem er með yfir tuttugu stórar vinnuvélar á svæðinu, en framkvæmdir hófust síðsumars 2022.

Grafík/Stöð 2
Ný brú yfir Hornafjarðarfljót, 250 metra löng, er stærsti hluti verksins. Jafnframt koma þrjár aðrar brýr, yfir Hoffellsá, Djúpá og Bergá, og er búið að steypa upp þær allar.

Egill Aðalsteinsson
Verkinu fylgir umtalsverð lagning nýrra vega; nítján kílómetrar af þjóðvegi og níu kílómetrar af hliðarvegum.
Ný gatnamót hringvegarins og afleggjarans að Höfn koma svo rétt fyrir utan bæinn. Það þýðir að hringvegurinn verður sneiddur framhjá Nesjahverfi.

Egill Aðalsteinsson
Heildarkostnaður er núna áætlaður um níu milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Verklok eru áætluð í desember á þessu ári og þá styttist hringvegurinn um tólf kílómetra.
Stefnt er að því að innheimta veggjald strax frá opnun vegarins. Fjárhæð þess hefur ekki verið ákveðin.
Heimild: Visir.is