Á Hellu rís nú ný viðbygging við grunnskólann. Viðbyggingin er fyrsti áfangi af fjórum sem munu tengja saman eldri byggingar og nýbyggingarnar í eina heildstæða
grunnskólabyggingu.
Nýbyggingarnar munu skapa ramma utanum framtíðaruppbyggingu skólastarfs á Hellu og sameina á einn stað í eina öfluga menntastofnun. Skólinn mun fullbúinn hýsa um 250 nemendur á for-, mið-, og unglingastigi, leikskóla með átta deildum með um 180 leikskólabörn, tónlistaskóla og um 60 – 80 kennara og aðra starfsmenn.

Fyrsti áfangi er bygging við Útskála, um 530 m2 viðbygging við núverandi skólabyggingu. Byggingin er með 4-5 kennslustofum, heimasvæði, sviði og stoðrýmum fyrir for- og miðstig skólans.
Viðbyggingin tengist elsta hluta skólans að norðanverðu. Byggingin er byggð úr forsteyptum samlokueiningum og er húsið klætt að utan að hluta til með litaðri álklæðningu, gluggar og hurðir eru úr áli og tréi.
Þak er viðsnúið þak lagt með úthagatorfi. Að innan eru klæðningar, innréttingar og hurðir úr aski og gólf dúklögð.
Heimild: Facebooksíða Arkís arkitektar






